Fimm dyra Fiat 500
Fimm dyra útgáfa eð langbaksútgáfa af Fiat 500 er nú á leiðinni og verður frumsýnd í vor á bílasýningunni í Genf. Sala á nýju gerðinni hefst í Evrópu og Bandaríkjunum í ársbyrjun 2013. Nútímaútgáfan af Fiat 500 er þannig í svipuðu þróunarferli og gamla gerðin var (og margar fleiri tegundir), eða þeirri að fyrst kom frumútgáfan og síðan nokkrar útfærslur af henni og svo loks langbakurinn. Annar þekktur og vinsæll „gamaldags“ bíll sem hefur gengið í gegn um samskonar þróunarferli er hinn nýi Mini, en hann og Fiat 500 höfða mjög til sömu kaupendahópa.
Eins og margir þekkja er undirvagn Fiat 500 sá sami og hjá Fiat Panda og því þarf vart að koma á óvart að ýmislegt í hönnun nýja 500-langbaksins minnir á Pönduna. Gera má ráð fyrir því að nýi 500 langbakurinn, sem fengið hefur gerðarheitið 500 XL, eigi eftir að setja nýjan gang í söluna á Fiat 500, eins og Mini Clubman hefur gert með Mini. En því til viðbótar þá hefur nýi tvegja strokka (Twin-Air) mótorinn sem fyrst kom fram í Fiat 500 fyrir um ári, hleypt nýju blóði í söluna á bílnum. Margt bendir því til að Fiat 500 eigi eftir að vera ágætur sölu- og tískubíll lengi enn, eins og Mini hefur reyndar verið.
Merkilegt má teljast að hvorugur þessara sérstæðu og ágætu aksturs- og lífsstílsbíla skuli aldrei hafa náð fótfestu á Íslandi. Nýi Mini bíllinn var kominn fram nokkru áður en efnahagshrunið varð á Íslandi, en þáverandi eigendur BMW umboðsins tóku þann pól í hæðina að markaðssetja hann ekki hér. Fáeinir Mini bílar fyrirfinnast þó í landinu en flestir eða allir hafa þeir verið fluttir inn til hliðar við BMW umboðið.
Um það leyti sem Fiat 500 kom fram á sjónarsviðið eftir eina stærstu markaðsherferð bílasögunnar, hugðist nýtt Fiatumboð á Íslandi setja bílinn á markað hér og voru nokkrir bílar komnir til landsins. Þá brast efnahagshrunið á og sala á nýjum bílum hrundi og nýju Fiat 500 bílarnir voru seldir úr landi.