Fimm stjörnu rafmagnsbíll
Í morgun birti Euro NCAP niðurstöður úr nýju árekstursprófa nýrra bíla. Rafbíllinn Nissan Leaf sem valinn var bíll ársins 2011 í Evrópu var meðal þeirra sem prófaðir voru og var niðurstöðunnar hvað hann varðar beðið með nokkrum spenningi og ekki olli hann vonbrigðum. Hann er fyrsti rafbíllinn sem hlýtur fullt hús stiga í þessu gallharða prófi – hinu marktækasta í veröldinni.
En árangur þeirra bíla sem prófaðir voru að þessu sinni er í heild afbragðsgóður. Alls voru sex bílar prófaðir og allir hlutu þeir fimm stjörnur sem er skýr vitnisburður um það hversu EuroNCAP, sem er samvinnuverkefni evrópskra bifreiðaeigendafélaga að FÍB meðtöldu, hefur áorkað í því að gera bílana sífellt öruggari fyrir þá sem í þeim ferðast. Þegar EuroNCAP hóf að árekstursprófa bíla fyrir um tveimur áratugum vildu bílaframleiðendur ekkert af starfseminni vita og hunsuðu niðurstöður og ábendingar stofnunarinnar. Það var svo Volvo sem braut ísinn og hóf að auglýsa grimmt góðan árangur sinna bíla. Síðan tóku aðrir framleiðendur að feta sömu slóð einn af öðrum og einna athyglisverðast er framtak Renault, síðar Renault/Nissan sem beinlínis markaði sér þá stefnu að verða í fremstu röð framleiðenda sem byggja örugga bíla.
Fimm stjörnu árangur Nissan Leaf er óneitanlega mikilvægur því að menn hafa óttast hættu á skammhlaupi í árekstrum og slysum á rafbílum sem haft gætu alvarlegar afleiðingar fyrir bæði þá sem í bílnum eru en einnig og kannski ekki síður þá sem koma að björgun í slysum. Þar sem rafbílum í umferðinni mun fyrirsjáanlega fjölga á næstu árum er nauðsynlegt að vita vissu sína í þessum efnum. Niðurstöðurnar sýna að ekki er ástæða til að óttast slíkt í Nissan Leaf. Allt sem viðkemur rafmagni í bílnum reyndist ekki skaðast þannig að hættu stafaði af.
Niðurstöðurnar nú eru úr annarri prófunarlotu þessa árs, og þar með líka í annað sinn sem skrikvarnarkerfi bíla, svonefnd ESC kerfi og hraðatakmarkarar eru prófað sérstaklega en það verður nú að vera til staðar í bílum til þess að þeir yfirleitt geti náð fimmtu Euro NCAP stjörnunni. Þessi kerfi sem og beltastrekkjarar og minnisbúnaður fyrir belti og sæti voru sérstaklega skoðuð. Til sérstakrar fyrirmyndar þótti þessi búnaður í V60/S60 sem hlaut öll stig sem í boði eru fyrir þennan öryggisþátt. Hér fyrir neðan má svo sjá á myndrænu formi meginniðurstöður hvers þessara sex bíla: