Fimmta dýrasta dísilolían er á Íslandi

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svaraði á alþingi í gær fyrirspurn frá Tryggva Þór Herbertssyni alþingismanni um hvort ríkisstjórnin hyggðist bregðast á einhvern hátt við síhækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti. Í fyrirspurnartímanum höfðu þingmenn fyrir framan sig upplýsingar úr fjármálaráðuneytinu um bílaeldsneytisverð: ...„Ég hafði óskað eftir því, frú forseti, að dreift yrði gögnum með upplýsingum sem við höfðum tekið saman því að að sjálfsögðu tökum við þessa stöðu alvarlega. Þar er m.a. að finna þróun yfir útsöluverð á bensíni og olíu í einum 22 Evrópulöndum og þar kemur t.d. í ljós að bensínverð á Íslandi er hið næstlægsta sem þar finnst...“ sagði fjármálaráðherra þegar hann svaraði fyrirspurn Tryggva Þórs.

Nú er komið í ljós að staðhæfingin um að útsöluverð bensíns á Íslandi sé næstlægst á Íslandi er ekki rétt. FÍB hefur yfirfarið útreikninga ráðuneytisins og svo virðist sem mannleg mistök hafi orðið þannig að villst hafi verið á línum og ársgamalt gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum óvart verið valið.

FÍB hefur tekið saman tvo lista um eldsneytisverð eftir Evrópulöndum. Á öðrum er hæsta bensínverðið efst en á hinum er hæsta dísilolíuverðið efst, þá næst hæsta og svo koll af kolli. Viðmiðunin er verð með þjónustu. Athygli vekur að dísilolíuverðið er það fimmta hæsta í Evrópu.

Rétt er að geta þess að eldsneytisverð í Evrópu getur verið mjög mismunandi eftir stöðvum og jafnvel eftir því á hvaða tíma dags eldsneyti er keypt. Þannig getur verðmunur í Danmörku numið allt að 20 ísl. kr. á lítrann frá einni stöð til annarrar á einum og sama deginum.

 

http://www.fib.is/myndir/Bensintafla.jpg http://www.fib.is/myndir/Diselverd-2.jpg
Bensínverð. Dýrasta landið efst.
Dísilolíuverð. Dýrasta landið efst.