Fimmtíu þúsund Nissan Leaf hafa verið seldir í Noregi
Sala á rafbílum gengur hvergi betur en í Noregi en í dag eru þeir hátt í 150 þúsund talsins. Í upphafi þessarar viku náði Nissan þar merkum áfanga en nú hafa fimmtíu þúsund Nissan Leaf verið seldir þar í landi. Fyrsti Nissan Leaf kom á götuna í Noregi 2011 og hefur síðan notið mikilla vinsælda. Það stefnir allt í að yfir 15 þúsund Nissan Leaf verði seldir á þessu ári í Noregi en bara í marsmánuði einum seldust á þriðja þúsund bílar.
Sala á rafbílum er best á Oslóar-svæðinu en bílar fara í enn meira mæli út á landsbyggðina en áður. Ekkert lát er á sölu rafbíla í Noregi og bendir margt til þess að salan verði enn meiri á næsta ári. Biðlistar eru eftir rafbílum og eru dæmi um að kaupendur þurfi að bíla í nokkra mánuði eftir nýjum bíl.
Norðmenn eru í algjöru forystuhlutverki þegar kemur að rafbílum í Evrópu og víðar í heiminum og er Nissan Leaf vinsælastur. Þess má geta að skráðir raf- og tengiltvinnbílar á Íslandi eru á níunda þúsund talsins. Fyrstu hlöður ON voru teknar í notkun í apríl 2014 en þá voru aðeins 94 rafbílar og 3 tengiltvinnbílar skráðir á Íslandi.