Fisker Karma rafbíllinn
Rafmagns lúxusbíllinn Fisker Karma kemur á markað í Evrópu í næsta mánuði. Verið er að dreifa fyrstu bílunum til söluumboða og fá Svíar t.d. fyrsta bílana í næstu viku.
Fisker Karma er bíll sem keyrir á rafmagni en rafstöð í honum sjálfum sér honum fyrir straumi þegar minnkar á geymunum. Bíllinn er byggður í bílaverksmiðju Valmet í Finnlandi sem áður byggði Porsche sportbíla. Hann er hannaður af danska bílahönnuðinum Henrik Fisker sem m.a. hannaði áður bíla hjá Aston Martin og BMW. BMW Z8 sportbíllinn er meðal höfundarverka Henriks Fisker.
Danska bílafyrirtækið Nellemann Fair Drive í Fredericia á Jótlandi hefur heildsöluumboð fyrir Fisker bíla á Norðurlöndunum að meðtöldu Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, Eystrasaltslöndunum og Úkraínu. Hvort stofnað hafi verið söluumboð hér á landi vitum við ekki.
Fisker Karma er ekki ódýr bíll, enda er þetta lúxusbíll sem hugsaður er sem umhverfismildur valkostur við bíla eins og Aston Martin Rapide, Maserati Quattroporte og Porsche Panamera. Hann er fjögurra sæta, er undir 6 sekúndum í hundraðið og kemst 80 kílómetra á rafgeymunum einum (fullhlöðnum). Aflið er rúm 400 hestöfl og útblásturinn er sagður 80 grömm af CO2 á kílómetra.