Fjáraukalög samþykkt í morgun
Fjáraukalög voru samþykkt í morgun á alþingi með aðeins 29 atkvæðum gegn einu mótatkvæði Sivjar Friðleifsdóttur. Fjórir sátu hjá. Mæting var semsé ekki góð en 32 þurfa að vera viðstaddir þingfund til að atkvæðagreiðsla geti farið fram. En formsatriðinu var fullnægt með þeim 34 sem viðstaddir voru. Með samþykktinni í morgun er fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs m.a. heimilt að taka strax eins milljarðs króna lán handa hlutafélaginu Vaðlaheiðargöng til að setja í upphafsframkvæmdir við væntanleg göng og taka ábyrgð á því að öllu leyti.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, greiddi atkvæði gegn fjáraukalagafrumvarpinu. Hún gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagði það vegna vinnubragðanna við afar umdeild atriði þess. Þingmönnum væri skylt að greiða atkvæði í þinginu en sér væri það mjög erfitt að greiða atkvæði nú vegna þess hvernig vinnubrögð við málið hafa verið. Gögn hafi m.a. komið seint fram og gjarnan merkt sem trúnaðargögn. Því kjósi hún að greiða atkvæði gegn málinu í heild til þess að lýsa andstöðu sinni við vinnubrögðin
Atkvæðagreiðslan átti raunar að fara fram í gærkvöldi en þá gengu þingmenn stjórnarandstöðu af fundi þannig að atkvæðagreiðsla gat ekki farið fram sökum fámennis. Áður höfðu þeir gagnrýnt harðlega það að hafa vart eða ekki fengið ráðrúm til að kynna sér gögn sem m.a. tengjast sölu á SPKef og Byr til Íslandsbanka og að engin skýrsla frá Ríkisendurskoðun lægi fyrir um meinta fjárhagslega sjálfbærni Vaðlaheiðarganga og reikningsforsendur gangamanna fyrir henni.
Þeir stjórnarandstöðuþingmenn sem gengu út af þingfundinum í gær létu þess getið margir hverjir að þeir hygðust ekki mæta heldur til fundar í dag. Það gekk eftir og voru t.d. þingmenn Sjálfstæðisflokks flestir á landsfundi flokksins sem hófst í morgun.