Fjarlægja girðingar eftir banaslys
Í kjölfar banaslyss á Miklubraut sl. laugardag hefur Vegagerðin ákveðið að fjarlægja allar grófar járngirðingar meðfram götum. Í banaslysinu kastaðist maður út úr bíl og hafnaði á járngirðingu en hann missti stjórn á bifreið sinni sem fór við það utan í vegrið.
Maðurinn kastaðist út úr bílnum og hafnaði á járngirðingu sem er á umferðareyju sem skilur akstursleiðirnar að en grófir vírar standa upp úr girðingunni. Auk ökumanns var farþegi í bílnum en hann slasaðist ekki alvarlega. Vegagerðin taldi girðingarnar öruggar en að mati sérfræðings geta þær verið stórhættulegar.
Vegagerðin taldi að vegrið beggja vegna girðinganna kæmi í veg fyrir að hætta stafaði af þeim fyrir akandi vegfarendur. Annað sé komið í ljós og því verður hætt alfarið að nota þessar girðingar og taka þær sem enn eru í notkun niður.
Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar kemur fram að vegrið ein og sér komi ekki í veg fyrir að gangandi vegfarendur freistist til að hlaupa yfir umferðarmiklar götur og þurfi því að leita lausna á því. Leitað hafi verið lausna erlendis frá en þær ekki fundist þar að sögn Vegagerðarinnar.
Ólafur Kr. Guðmundsson, tæknistjóri alþjóðlegu vegaöryggissamtakanna EuroRap á Íslandi sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda sér um framkvæmd á, gerir alvarlegar athugasemdir við aðstæður á slysstað. EuroRap eru samtök 29 bifreiðaeigendafélaga í jafnmörgum löndum Evrópu, stofnuð árið 1999 að frumkvæði FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigenda. Hlutverk EuroRap er að framkvæma gæðamat á vegum út frá slysasögu og mati á öryggi veganna samkvæmt samhæfðum aðferðum. Meginmarkmiðið verkefnisins er að fækka verulega banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni.
Ólafur Kr. Guðmundsson segir að þessi gerð girðinga eigi alls ekki að vera þarna. Þetta er ekki umferðarvæn vara, ekki heldur viðkennt né árekstarprófuð. Þessar girðingar séu vítt og breitt um borgina og á mörgum stöðum er Vegagerðin búin að girða þær af með vegriðum sem er út af fyrir sig gott. Það sannaðist hins vegar í þessum tilfelli að er ekki nóg.
,,Á umræddum slysstað sl. laugardag virkaði vegrið en vegna þess að ökumaðurinn var ekki í bílbelti hentist hann út úr bílnum. Hann lentir á þessari girðingu með fyrrgreindum afleiðingum. Þessar girðingar eru ekki hugsaðar til að setja við vegi heldur girðingar sem eru í skemmtigörðum til að girða gróður og annað slíkt. Þetta er ekki vara sem á nota við vegi enda er Vegagerðin búin að gefa það út að hún ætli að taka umræddar girðingar niður. Vegagerðin hélt að hún væri að gera góða hluti með því að setja vegriðið á en það kemur núna í ljós að er ekki nóg,“ sagði Ólafur.
Að sögn Ólafs ætlar Vegagerðin að endurskoða hvernig hægt verði að koma í veg fyrir að fólk hlaupi yfir götuna sem var megin tilgangurinn með uppsetningu þessara girðinga á sínum tíma. Það að vera með girðinguna í miðjunni, á miðeyjunni, er ekki bara nema hálf sagan. Það er vegna þess ef fólk hleypur út á götuna og kemur að þessari girðingu þá ertu búinn að hlaupa yfir hálfa götuna.
,,Það er miklu nær að vera með einhverskonar varnir, girðingar eða merkingar við gangstígana sitt hvorum megin við götuna heldur en á miðeyjunni. Nú þarf að finna lausn, setja upp girðingar sem eru viðurkenndar og þær eru til úti í heimi. Möguleiki er ennfremur að girða við gangstígana sitt hvorum megin við götuna sem ég held að hljóti að verða endalega lausnin,“ sagði Ólafur Kr. Guðmundsson.
Í morgunútvarpi á Rás 2 í morgun var umrætt mál til umfjöllunar og viðtal við Ólaf Kr. Guðmundsson. Umfjöllunina má nálgast hér http://www.ruv.is/frett/flest-alvarleg-slys-verda-a-miklubraut