Fjármálaráðuneytið hafnar áskorun FÍB
Félagi íslenskra bifreiðaeigenda var að berast bréf frá fjármálaráðuneytinu undirritað af starfsmönnum fjármálaráðuneytisins fyrir hönd ráðherra. Með bréfinu hafnar ráðuneytið áskorun FÍB um lækkun skatta á bifreiðaeldsneyti.
FÍB væntir þess að erindi félagsins hafi verið tekið til efnislegrar meðferðar á vettvangi ríkisstjórnarinnar þó að af svarbréfinu virðist sem það hafi eingöngu verið tekið fyrir á vettvangi fjármálaráðuneytisins.
FÍB skoraði á stjórnvöld að koma til móts við fólkið í landinu og lækka skatta á eldsneyti nú þegar heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu er í sögulegu hámarki. Það eru vonbrigði að ráðuneytið hyggist ekki beita sér fyrir lagabreytingu í þá veru sem FÍB óskaði eftir.
Málinu er ekki lokið því nú þegar hafa hátt í 8 þúsund tekið undir áskorun FÍB til stjórnvalda um lækkun skatta á eldsneyti á heimasíðu félagsins www.fib.is.
Í þessum mánuði mun FÍB ítreka áskorun sína til ríkisstjórnarinnar og leggja fram lista með nöfnum þeirra sem taka undir málstað félagsins um að dregið sé úr ofursköttum stjórnvalda á eldsneyti og þar með bíla og umferð hér á landi.
Svar fjármálaráðherra:
http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/4480