Fjögur tilboð bárust í landfyllingar Fossvogsbrúar
Fjögur tilboð bárust í landfyllingar og sjóvarnir vegna nýbyggingar brúar yfir Fossvog. Tilboð voru opnuð í vikunni, nánar tiltekið 10. desember. Verkið er hluti af 1. lotu Borgarlínunnar og uppbyggingu fyrir þróunarsvæði í Skerjafirði. Því skal að fullu lokið 1. nóvember 2026.
Tilboð bárust frá Íslensku aðalverktökum, Ístaki, Suðurverki og Loftorku og Gröfu og grjóti. Þrjú tilboðanna eru undir áætluðum verktakakostnaði. Vegagerðin mun nú fara yfir tilboðin þar sem meðal annars verður kannað hvort tilboðin standist útboðsskilmála. Að því loknu verður gengið til samninga og því næst hefst undirbúningur fyrir framkvæmdir.
Þá bárust fimm tilboð í eftirlit og ráðgjöf vegna landfyllinganna. Bæði þessi útboð voru auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.