Fjórar stórborgir banna dísilbíla
Árið 2025 gengur í gildi bann við akstri dísilbíla í fjórum stórborgum heimsins. Þetta eru borgirnar Mexico City í Mexíkó, Paris í Frakklandi, Madrid á Spáni og Aþena í Grikklandi. Allar hafa þessar borgir lengi verið hrjáðar af loftmengun en mismikilli.
Ráðamenn þessara fjögurra borga hittust á svonefndri C40 umferfismálaráðstefnu sem haldin var í Mexíkó í sl. viku. Þar sammæltust þeir um dísilbílabannið.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO telur að árlega deyi þrjár milljónir manna í heiminum af völdum loftmengunar og að dísilreyksmengun eigi þar mikinn hlut að máli. Dísilknúin farartæki losi frá sér tvennskonar verulega heilsuspillandi útblástur; annarsvegar sótagnir og hinsvegar níturoxíð-efnasambönd. Níturoxíðsamböndin geta stuðlað að myndun ózons sem eitt og sér getur valdið öndunarerfiðleikum. Bæði sótagnirnar og níturoxíðin eru talin til krabbameinsvalda, ekki síst sótagnirnar sem eru það smáar að bifhár lungnanna geta ekki bægt þeim frá. Þær setjast því í lungun og ganga jafnvel inn í blóðrásina og valda alvarlegum meinum, svo lungnakrabba, hjarta-, æða- og blóðsjúkdómum.