Fjórði hver lítt hrifinn af sjálfkeyrandi bílum
Margir hrífast af sjálfkeyrandi bílum og vonast til að með fjölgun þeirra muni umferðarslysum stórlega fækka og það því meir sem sjálfkeyrslubílunum fjölgar. Sjálfkeyrandi tilraunabílar frá t.d. Google, Tesla Motors, Mercedes o.fl eru þegar á vegum og götum og á næsta ári ætlar Volvo að hleypa 100 sjálfkeyrandi tilraunabílum út í Gautaborgarumferðina í Svíþjóð.
En ekki eru allir jafn hrifnir. Sænska tryggingafélagið If hefur kannað viðhorf almennings til sjálfkeyrandi bíla alveg nýlega. Af 2.700 sem svöruðu sögðust 30 prósent vera jákvæð gagnvart sjálfkeyrandi bílum í umferðinni, 31 prósent sögðust ekki hafa skoðun á málinu og 25 prósent voru neikvæð.
Dan Falconer umferðarsérfræðingur hjá If segir við Motormagasinet í Svíþjóð að það að hefja notkun sjálfkeyrandi bíla sé eitt stærsta tækniskref sem tekið hefur verið í rúmlega aldar langri sögu bílsins. Það sé skref sem reyni mjög á ökumanninn sem nú verður að sleppa stýrinu og láta bílinn sjálfan alfarið um aksturinn og treysta á að hann ráði við verkefnið. Bæði það og sú staðreynd að mjög fáir vita eða skilja hvernig sjálfkeyrslutæknin virkar, veldur því að fólk er tortryggið - eðlilega.
Mestar vonir eru bundnar við að sjálfkeyrslutæknin sé miklu betri „bílstjóri“ en venjuleg lifandi manneskja. Hún sé miklu fljótari að koma „auga“ á og greina hættu heldur en manneskja og margfalt fljótari að bregðast við henni. Þar með er þeim áhættuþáttum umferðarinnar sem raktir verða til mannlegra takmarkana og breyskleika fækkað. Ráðgjafafyrirtækið McKinsey er einna bjartsýnast í þessum efnum og spáir því að umferðarslysum fækki um 90 prósent þegar sjálfkeyrslutæknin hefur náð útbreiðslu.
Svo bjartsýnir eru þeir ekki sem svöruðu áðurnefndri könnun tryggingafélagsins If. 46 prósent telja vissulega að slysum fækki og að breyting verði til batnaðar, en ekki stórvægileg. En 20 prósent telja aftur á móti að tæknin muni leiða til þess að slysum fjölgi. Svartsýnastir eru svarendur á aldrinum 18-29 ára.
Dan Falconer er ekki trúaður á það. Sjálfkeyrslubúnaðurinn sé laus við ýmsa mannlega áhættuþætti eins og að sofna undir stýri og detta í það og keyra fullur. Það eitt hljóti að leiða til þess að slysum fækki en allt of snemmt sé að fullyrða eitthvað um hversu mikið. En öll háþróuð kerfi geti auðvitað bilað og slys orðið þessvegna. Þá vakni sú spurning hver sé ábyrgur þegar sjálfkeyrandi bíll veldur slysi. Áður en sjálfkeyrðir bílar verða almennir þarf því að ljúka vinnu við að skilgreina þau mál og síðan lögfesta. Það liggur á því, tæknin er í mjög hraðri þróun.
Slík vinna er víða hafin en engin lagasetning um sjálfkeyrandi bíla hefur tekið gildi neins staðar eftir því sem best er vitað. Sænska ríkisstjórnin hefur sett nefnd í það að kanna allar lagalegar hliðar þessarar nýjungar sem sjálfstýrðir bílar eru og gera tillögur um hvernig og að hvaða leyti þarf að breyta umferðarlögum, skaðabóta- og tryggingalögum áður en þessir bílar verða almennir. Engin slík vinna mun vera hafin hér á landi.
Framannefnd könnun tryggingafélagsins If var gerð var gerð 21. október – 2. nóvember 2015. Spurningar voru lagðar fyrir 3955 manns, 189 ára og eldri, af báðum kynjum. Svör bárust frá 2.700.