Fjórðungur bílastæða við HÍ hverfa
Í gær var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hátæknisetri lyfjafyrirtækisins Alvogen við Sæmundargötu 15-19 í Vatnsmýrinni. Húsið verður 11 þúsund fermetrar og rís á svæði þar sem í dag er stórt bílastæði fyrir háskólann. Með byggingu hússins hverfur um það bil fjórðungur þeirra bílastæða sem nemendur og starfsmenn skólans hafa haft til að leggja bílum sínum yfir daginn.
Greinilegt er að fólk hjá framkvæmda- og tæknisvið HÍ er nokkuð hugsi yfir því hvernig skuli bregðast við bílastæðavanda skólans sem til þessa hefur verið nokkur, en mun magnast við það að fjórðungur stæðaframboðsins hverfi í einu vetfangi. Nú hefur verið send út könnun á ferðavenjum stúdenta á lokuðu vefsvæði skólans. Af henni má ráða að til greina kemur að hefja 700 króna gjaldtöku á dag á þeim bílastæðum á landi skólans sem til þessa hafa verið gjaldfrjáls og er sú upphæð nefnd sérstaklega því í spurningu 2.6 segir: „Segjum svo að gjaldskylda hafi verið tekin upp á öllum bílastæðum Háskóla Íslands og að það kosti 700 krónur á dag að leggja bílnum. Afsláttur er þó í boði ef lagt er fyrir kl. 7:45. Hver er minnsti afsláttur sem þú myndir sætta þig við?“ Tilgangurinn með gjaldtökunni er augljóslega sá að beina fólki frá því að koma á bílum í skólann heldur velja aðra samgöngumáta – strætisvagna, reiðhjól og tvo jafnfljóta. Sjá þessa frétt:
Nemandur við HÍ sem hafasett sig í samband við FÍB segja greinilegt að skólayfirvöld ætli sér ekki að reyna að mæta eftirspurn eftir bílastæðum heldur freista þess að draga sem mest úr henni með háum daggjöldum fyrir bílastæðanotkun. Einn þessara nemenda hefur vakið athygli stúdentaráðs HÍ á málinu og hvatt stúdenta til að svara könnuninni og láta með því í ljós hug sinn til málsins. Af þessum gjaldtökuhugmyndum er ljóst að stefna Háskólayfirvalda er að þessu leyti nokkuð í takti við þá stefnu borgaryfirvalda að hamla gegn notkun og umferð bifreiða um höfuðborgina með því að setja upp hverskonar trafala og hindranir akandi fólki til höfuðs.