Fjórir Íslendingar hófu keppni í Gumball 3000 á sunnudag
Gumball 3000 hófst í London á sunnudaginn. Gumball 3000 er kappakstur þess frægðarfólks sem þekkt er úr heimi tísku, kvikmynda og annarrar afþreyingar, sem og stórviðskipta. Kappaksturinn er í sama anda og bíómyndirnar um Cannonball Run þar sem Burt Reynolds lék sig sjálfan í kappakstri þar sem fáar aðrar keppnisreglur giltu en þær að komast fyrstur á áfangastað og öll umferðarlög og –reglur voru hundsaðar eftir hentugleikum.
Gumball 3000 er kappakstur ríka og fræga fólksins og er haldinn utan við öll lög og rétt. Þátttökugjald er um 5,5 milljónir ísl. kr. En þrátt fyrir það eru engar heimildir veittar fyrir þessari keppni í þeim löndum sem kappaksturinn fer fram í og ekki er heldur sótt um neinar slíkar heimildir. Vart þarf því að taka fram að FIA, alþjóðasamtök bifreiða- og vélaíþrótta og bifreiðaeigendafélaga koma hvergi nærri slíkum kappakstri. Raunar hafa samtökin lýst yfir andúð sinni á hátterninu enda er það stórhættulegt og ekki til eftirbreytni að stunda kappakstur innan um og saman við almenna umferð, eins og Íslendingar hafa mátt reyna undanfarið á götum höfuðborgarsvæðisins
Gumball 3000 kappaksturinn er nú kominn á fullt skrið og leiðin lá frá London þar sem aksturinn hófst á sunnudag áleiðis til Brussel, Vínarborgar, Búdapest og Belgrad. Frá Belgrad verða bílar og keppendur fluttir með Antonov risa-flutningaflugvél og Boeing 757 frá íslenska flugfélaginu Icelandair til Malasíu. Ekið verður um Malasíu og Tæland til Bangkok þar sem bílar og fólk verður tekið á ný um borð í flugvélar og selflutt til Salt Lake City í Bandaríkjunum.
Ekið verður svo þaðan um Bonneville saltslétturnar til Las Vegas og síðan áfram til Los Angeles þar sem keppnin svo endar 7. Maí og verður lokapartý mikið haldið á setri Playboy-kóngsins Hugh Hefners.
Fjórir Íslendingar taka þátt í þessari keppni. Þeir eru samkvæmt frétt á Visir.is, Hannes Smárason forstjóri FL Group sem ekur á Porsche, Ragnar Agnarsson á BMW M5 og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugur Group, og félagi hans Guðmundur Ingi Hjartarson en þeir aka Bentley. Vísir. Is greinir frá því að Íslendingarnir séu í félagsskap með fólki á borð við Pamelu Anderson, Hugh Hefner, Snoop Dog, Adrien Broady.