Fjórir nýir metan-sendibílar í notkun
Selecta á Íslandi hefur tekið í notkun fjóra nýja Mercedes-Benz Sprinter atvinnubíla sem ganga fyrir íslensku metani. Fyrirtækið er leiðandi á sviði kaffi- og vatnsvéla- og sjálfsalaþjónustu við fyrirtæki og stofnanir. Selecta stefnir að því að umhverfisvæða bílaflota sinn eins og kostur er með því að velja eingöngu bifreiðar sem ganga fyrir umhverfisvænu eldsneyti. „Stefna okkar er að dreifa hreinu og fersku vatni sem og góðu kaffi til okkar viðskiptavina. Það er því í takt við gildi okkar að aka um á bílum sem eru bæði umhverfisvænir og rekstrarlega hagkvæmir,“ segir Leifur Örn Leifsson, framkvæmdastjóri Selecta.
Frá afhendingu metanbílanna.Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju er lengst til vinstri á mynd-inni og Páll Halldórsson sölustjóri Öskju lengst til hægri. |
Auk þess að stuðla að minni útblæstri þá reiknar Selecta með að árlegur sparnaður af rekstri bílanna sé yfir 200.000 kr. á ári fyrir hvern bíl ef einvörðungu er ekið á metani og eknir eru um 15.000 km. „Við gerum því ráð fyrir að á hverju ári spörum við rúmar 800.000 kr. og á 10 ára tímabili borgum við ríflega einn af þessum fjórum bílum með hreinum eldsneytissparnaði. Að auki spörum við okkur vörugjöld en metanbílar eru fluttir inn án vörugjalda. Metan er íslenskt eldsneyti og sparar dýrmætar gjaldeyristekjur,“ segir Leifur Örn.
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi segir að metanbílar séu góður kostur fyrir íslensk fyrirtæki. Fyrirtæki geti sparað sér allt að helming rekstrarkostnaðar auk þess sem umhverfisáhrif séu umtalsvert minni en af hefðbundnum bifreiðum. „Mercedes-Benz hefur verið mjög framarlega á þessu sviði í fjölda ára. Í dag bjóðum við upp á margar gerðir atvinnubíla sem knúnar eru metani, t.d. Sprinter sem fólksflutningabíl, sendibíl, pallbíl og grind sem hægt er að sníða að rekstri hvers og eins. Auk þess bjóðum við upp á metanknúna fólksbíla af gerðinni B-Class og síðan er E-Class einnig væntanlegur í metanútfærslu. Þá eru flestir sorphirðubílar höfuðborgarsvæðisins af gerðinni Mercedes-Benz og metanknúnir. Þessir bílar hafa komið vel út í rekstri og viðhaldi,“ segir Jón Trausti.