Fljótir að bregðast við og hjálpa fólki
Kristján Daði Valgeirsson hefur frá 2013 annast FÍB-aðstoð á Suðurnesjum. Kristján er öllum hnútum kunnur í störfum sem lúta að björgun og aðstoð almennt við bifreiðaeigendur. Hann hefur alls starfað í 15 ár á þessum vettvangi og það hafi síðan verið skemmtileg viðbót þegar hann gekk til starfa fyrir FÍB á svæðinu fyrir fimm árum. Kristjáni til halds og traust í starfinu er Eiríkur Kristinn sonur hans.
,,Eins og gefur að skilja er mismikið að gera í þessu starfi. Það snýr mest að dekkjaskiptum og gefa start. Það er síðan alltaf eitthvað um það að útlendingar komi hingað og leiti aðstoðar og þá er það einna helst í gegnum bílaleigurnar,“ sagði Kristján Daði sem segir umferðina á svæðinu hafi aukist gífurlega við aukinn straum ferðamanna til landsins.
Kristján segir aðstoðina í gegnum FÍB að mestu leyti vera á kvöldin og á næturnar. Fólk óski eftir aðstoð á þessum tíma mestmegnis og þeir feðgarnir séu fljótir að bregðast við og hjálpi fólki af fremsta magni. Það sé gefandi að hjálpa fólki í vandræðum.
,,Við erum með mjög góðan búnað sem reynst hefur vel við ýmsar kringumstæður. Við höfum yfir að ráða þremur dráttarbílum og öðrum mjög góðum græjum sem tengjast og koma að notum í allri aðstoð,“ segir Kristján Daði Valgeirsson.