Flokkur ráðherrans á móti vegtollum fyrir kosningar
Enn á ný er umræða farin af stað um vegtolla en samgönguráðherra boðar sérstakt frumvarp þess efnis eftir áramót. Ráðherra mælti samtímis í gær á Alþingi bæði fyrir fimm ára og fimmtán ára samgönguáætlun. Ennþá vantar fjármuni upp á til að mæta kröfum úr öllum landshlutum eins og kom fram í umfjöllun Stöðvar 2.
FÍB hefur ítrekað mótmælt hugmyndum um nýja bílaskatta í formi vegtolla á liðnum árum. Það er undarlegt að ráðherra samgöngumála og formaður Framsóknarflokksins sé nokkrum mánuðum eftir kosningar búinn að umhverfast í afstöðu til vegtolla, nýrrar skattheimtu á almenning, þvert á stefnu og kosningaloforð Framsóknarflokksins.
Fyrir síðustu alþingiskosningar lagði FÍB spurningar fyrir flokkana sem þá voru í framboði og laut ein spurningin að því hver væri skoðun flokkanna á vegtollum. Þar kom fram að Framsóknarflokkurinn hefði ekki nein óform um slíkt. Í umræðum á þingi í gær var ráðherranum ennfremur bent á þessa skoðun flokksins sem hann hafði uppi fyrir kosningar í fyrrahaust.
Ein spurningin sem lögð var fyrir flokkanna fyrir síðustu kosningar í 2. tbl. FÍB- blaðsins 2017 var eftirfarandi: Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til viðbótar skattlagningar á vegfarendur í formi vegtolla. Svar Framsóknarflokksins, flokks núverandi samgönguráðherra, var orðrétt.
,,Framsóknarflokkurinn er ekki hlynntur vegatollum, þeir eru viðbótarskattur sem leggst þyngst á þá sem sækja vinnu daglega til höfuðborgarsvæðisins.“
Samgönguráðherra sagði á þinginu í gær hægt að tvöfalda þá upphæð sem rynni til vegakerfisins með gjaldtöku á ákveðnum mannvirkjum, svo sem brúm og göngum, og það er ein þeirra leiða sem verið er að skoða til að tryggja aukið fjármagn í vegakerfið. Hann sagði ennfremur að samþykki Alþingi að ráðast í nýjar fjármögnunarleiðir verður hægt að hraða mikilvægum vega- og jarðgangaframkvæmdum í áætluninni.
Sá rökstuðningur að nú sé þörf á vegtollum vegna orkuskipta í samgöngum heldur ekki vatni. Það verða lagðir vegskattar á hreinorkubíla fyrr en seinna en það þarf ekki að stoppa alla bíla í veghliðum til þess. Einfaldasta form innheimtu vegskatta af hreinorkubílum er að leggja gjöld á þá bíla miðað við áætlaðan akstur. Ef við miðum við meðalakstur 12.000 kílómetra á ári þá fær bíleigandi mánaðarlega innheimtu upp á 1.000 km akstur.
Hægt er að taka þessa bíla í árlegan álestur hjá skoðunarstofum og þá kemur í ljós hvort innheimta þarf álag eða endurgreiða úr ríkissjóði oftekin gjöld. Þetta innheimtukerfi þekkja allir neytendur í tengslum við notkun á rafmagni og heitu vatni.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir 2019, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, má gera ráð fyrir að skattar á bíla og umferð fari yfir 80 milljarða króna ef hugmyndir um tvöföldun ráðstöfunartekna til vegamála með vegtollum kæmu til framkvæmda þá væru skattar á bíleigendur komnir yfir 100 milljarða króna á ári. Í fjárlagafrumvarpinu er áætlað að verja um 29.1 milljarði króna í framkvæmdir, viðhald og þjónustu við vegakerfið á árinu 2019.
Þessi framlög eru um 38% af innheimtum bílasköttum og þá virðist eina leiðin til að hækka framlög til vega sé að leggja á vegtolla. Kostnaður við innheimtu vegtolla er umtalsverður þannig að til að innheimta 20 milljarða króna í formi vegtolla til aukinna framkvæmda þurfa bíleigendur að borga ofan á það 11% vsk. og síðan kostnað við innheimtuna sem getur orðið umtalsverður. Þess má geta að áætluð framlög til vega hækka á komandi ári um tæplega 4.6 milljarða króna miðað við líðandi ár.
FÍB hefur margsinnis bent á að þjóðvegakerfi landsins sé í mjög slæmu ástandi eftir áratugalangan viðhaldsskort. Það er ólíðandi að ráðamenn gangi á bak orða sinna og leggi til stóraukna skattheimtu til þess eins að mæta því að verja svipuðu hlutfalli þjóðartekna til vegabóta líkt og var á árunum fyrir hrun.