Flottur bíll á frábæru verði
Hekla hf, umboðsaðili Volkswagen á Íslandi hefur sent frá sér eftirfarandi frétt í tilefni af vali á bíl ársins á Íslandi: Á myndinni með þessari frétt afhendir Sigurður Bragi Guðmundsson t.v, margfaldur sigurvegari í ralli, Marinó B. Björnssyni stálstýrið.
„Bandalag íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, tilkynnti um val á bíl ársins 2012 í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands föstudaginn 2. sept 2011. Að þessu sinni var það Volkswagen Passat í metanútfærslu sem hlaut verðlaunin „Bíll ársins 2012“. Volkswagen Passat fær því verðlaunagripinn Stálstýrið 2012.
Bílar sem gjaldgengir voru í keppnina að þessu sinni voru bílar sem höfðu komið á markað hér á landi frá ágúst 2010. Dómnefnd tók tillit til aksturseiginleika, afkastagetu, eldsneytisnotkunar, visthæfi, öryggisbúnaðar, útlits og hönnunar bílanna og endursöluvirðis svo nokkuð sé nefnt.
Í Volkswagen Passat er hugsað um hvert smáatriði þegar kemur að hönnun, þægindum og öryggi. Passat er ríkulega búinn staðalbúnaði og er einstaklega rúmgóður og þægilegur í akstri. Einnig er í boði fjölbreytt úrval aukahluta og tækni sem einkennt hefur Volkswagen sem nýjungagjarnan framleiðanda. Fimm stjörnu eiknunn VW Passat í árekrarprófun Euro Ncap staðfestir þá stefnu Volkswagen að öryggið sé ávallt í forgangi.
Volkswagen Passat EcoFuel notar metangas sem aðal orkugjafa en einnig er hann með 31 lítra bensíntak. Hámarksdrægni á metangasi er um 450 km og 430 km á bensíninu. Þannig er hægt að aka 880 km að hámarki án þess að fylla á eldsneytið sem er vel ríflega vegalengdin frá Reykjavík til Akureyrar og til baka. Metangas er unnið úr lífrænum úrgangi á Íslandi og nær allt að 98% hreinleika, sem gerir það að einum umhverfisvænasta orkukostinum. Metangas er mun ódýrara eldsneyti heldur en bensín og dísil. Árlegur sparnaður getur numið um 100.000 krónum m.v. 15.000 km akstur á ári. Einnig fá metanbílar frítt í stæði í Reykjavík þannig að ávinningurinn er margvíslegur.“
Friðbert Friðbertsson forstjóri HEKLU: „Volkswagen Passat verðskuldar fyllilega að vera valinn bíll ársins 2012 á Íslandi. Þetta er flottur bíll á frábæru verði og einstaklega sparneytinn. Metan útfærslan mælist vel fyrir og er umhverfisvæn og nýtir íslenskt eldsneyti sem er góður kostur. Vélin í Passat EcoFuel er sérhönnuð til brennslu á metani, enda er brunahiti vélarinnar hærri við brennslu metans heldur en á bensíni“.
Marinó Björnsson sölustjóri Volkswagen á Íslandi: „Volkswagen Passat hefur verið einstaklega farsæll síðan hann kom á markað árið 1973. Núna er sjöunda kynslóð Passat komin á markað sem er stórglæsilegur bíll í alla staði. Glæsileg hönnun, einstakir aksturseiginleikar með sparneytni og öryggi í hæsta gæðaflokki. Það kemur mér því ekki á óvart að hann fái þessa viðurkenningu. Volkswagen hefur unnið þessi verðlaun sl. tvö skipti sem þau hafa verið veitt, en Volkswagen Tiguan vann síðast“.
Úrslit í vali á bíl ársins 2012 voru eftirfarandi:
Í flokki smærri fólksbíla sigraði Audi A1.
Í flokki vistvænna bíla sigraði Volkswagen Passat EcoFuel.
Í flokki stærri fólksbíla sigraði Volvo S60
Bíll ársins 2012: Volkswagen Passat EcoFuel