Flugvél og pallbíll í árekstri

http://www.fib.is/myndir/Flugv-bill.jpg
Áreksturs flugvélar og bíls í S. Afríku sl. sunnudag.

Eitt sérkennilegasta umferðarslys sem sögur fara af varð skammt utan við Jóhannesarborg í S. Afríku sl. sunnudag. Slysið varð með þeim hætti að lítil tveggja sæta kennsluflugvél sem var í flugtaki, náði ekki flugi og hrapaði niður á veg og rakst þar á pallbíl.

Eldur kom upp í flugvélinni við áreksturinn en nærstaddir vegfarendur drógu flugmanninn og farþega hans út úr brennandi flugvélarflakinu meðan aðrir sinntu tveimur ungum konum sem óku í pallbílnum sem var að vonum illa brugðið við áreksturinn.

Vegfarandi sem sá slysið gerast segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni við áreksturinn. Hann rauk til og dró meðvitundarlausan flugmanninn út úr brennandi flugvélinni og aðstoðaði farþega hans sem virtist ómeiddur og gat að mestu sjálfur forðað sér út úr og frá brennandi flakinu.