Fölsuð sektarboð
Svikahrappar finna stöðugt nýjar leiðir til að féfletta fólk og eitt það nýjasta sem sögur fara af gagnvart ferðalöngum er það að senda fölsuð sektarboð heim til fólks sem tekið hefur bíla á leigu í fríinu í suðrænu landi. Sektarboðin geta litið mjög sannfærandi út og því skal hér varað við því að borga svona kröfur nema að vel athuguðu máli.
Hið norska systurfélag FÍB - NAF, hefur haft til meðferðar tvö mál af þessu tagi þar sem félagsmenn tóku á leigu bíla hjá litlu bílaleigufyrirtæki á Gran Canaria. Eftir heimkomuna bárust þeim bréf frá sinni hvorri innheimtustofunni þar sem þeir voru krafðir um greiðslu hraðasekta. Báðar þessar kröfur hafa reynst vera falskar. En þær líta vissulega mjög sannfærandi út og allar upplýsingar í þeim um ökumann og bíl eru réttar og greinilega fengnar úr gögnum bílaleigunnar. Sjá myndirnar hér að neðan.
Enda þótt við höfum ekki nema þessi tvö dæmi ennþá er mjög líklegt að vænta megi fleiri svona féflettingatilrauna. Því skulu ferðalangar sem fá bréf með svona kröfum eftir að heim er komið, gæta sín vel og ekki láta ekki gabbast. NAF fól hinu spænska systurfélagi RACE að kanna bæði þessi mál og í ljós kom að enginn fótur var fyrir kröfunum og hefur málið verið kært til spænskrar lögreglu.
Þeir félagsmenn FÍB sem hugsanlega munu fá svona innheimtubréf vegna umferðarbrota sem þeir ekki kannast við að hafa drýgt, er hér með bent á að setja sig í samband við FÍB og fá lögfræðilega ráðgjöf um hvað gera skuli. FÍB mun síðan leita eftir liðsinni systurfélags síns í viðkomandi landi.
Í þessu samhengi er það líka góð varúðarregla að eiga frekar viðskipti við stóru bílaleigukeðjurnar en litlar bílaleigur sem oft bjóða mjög lág leiguverð en reyna síðan að vinna inn mismuninn með sölu á rándýrum aukatryggingum þegar komið er á staðinn til að taka við bílnum. Þar til viðbótar eru þessar ódýru bílaleigur oft með gamla og mikið ekna bíla og ef þeir svo bila einhversstaðar úti á vegum, er miklum vandkvæðum bundið að fá aðstoð, hvað þá annan bíl í stað þess bilaða. Svona vandræði er sem betur fer sjaldgæf hjá stóru bílaleigukeðjunum.