Ford á undanhaldi í Evrópu
Bandaríski bílarisinn Ford virðist hafa verið betur í stakk búinn til að mæta fjármálakreppunni sem brast á 2008. Fyrirtækið komst í gegn um hana án þess að þurfa að þiggja ríkisaðstoð eins og GM og Chrysler neyddust til.
Að einhverju leyti var það efalítið að þakka þeirri velgengni sem pallbíllinn F-150, sem myndin er af, hefur notið um langt árabil á heimavelli, en bíllinn var lengi mest selda bílgerð bílasögunnar, þótt nú hafi sú vending orðið að Toyota Corolla hefur skotist fram úr pallbílnum vinsæla.
En í Evrópu gengur Ford ekki jafnvel og á heimavellinum. Þar er bílaframleiðslan nú einungis 63 prósent af fullri afkastagetu en þyrfti að vera 80 prósent ef vel ætti að vera. Mikið tap er því á rekstrinum í Evrópu og Alan Mulally forstjóri Ford hefur sagt að það stefni í það að verða milljarður dollara á árinu. Þótt salan gangi ágætlega á heimavellinum í Bandaríkjunum þá er tapið það mikið í Evrópu að nettótekjur Ford hafa lækkað það sem af er árinu um 57 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Vegna þessa þykir líklegt að Ford neyðist til að leggja fljótlega niður bílaverksmiðjur í Evrópu í hagræðingarskyni.