Ford Capri kemur aftur
Breska bílablaðið Auto Express telur að nýi Ford Capri bíllinn muni líta einhvernveginn svona út.
Evrópskir bílafjölmiðlar telja sig hafa vissu fyrir því að gerðarheitið Capri sem var á litlum fjölskyldusportbíl frá Ford í Evrópu á síðustu áratugum 20. aldar muni birtast innan tíðar á samskonar bíl. Hugmyndarbíll með Capri-nafninu verði sýndur á einhverri af stóru bílasýningunum í haust, trúlega Parísarsýningunni.
Breska bílatímaritið Auto Express segir að nýi Capri Fordinn verði byggður á grunni Ford Focus og vélin verði fimm strokka túrbínubensínvélin sem er í mörgum Volvobílum og Capri verði fáanlegur bæði með tví- eða fjórhjóladrifi. Bíllinn sé væntanlegur í framleiðslu innan tveggja ára og muni þá keppa á markaði við t.d. Audi TT, VW Scirocco, Peugeot 308 RC-Z og nýja Toyotu Celica/Subaru.