Ford kaupir bílaverksmiðju í Rúmeníu

http://www.fib.is/myndir/Ford-Logo.jpg

Ford hefur gert bindandi tilboð í bílaverksmiðju í Rúmeníu. Verksmiðjan sem er í eigu rúmenska ríkisins var upphaflega í eigu hins kóreska Daewoo sem varð gjaldþrota. Þegar GM síðan yfirtók þrotabú Daewoo fylgdi rúmenska verksmiðjan ekki með í kaupunum. Ford í Evrópu ætlar að uppfæra verksmiðjuna og stefnir að því að byggja í henni yfir 300 þúsund bíla á ári fyrir austur-evrópskan bílamarkað.

Verksmiðjan umrædda er í bæ sem nefnist Craiova og er í suðurhluta Rúmeníu. Kaupsamningaviðræður milli Ford í Evrópu og einkavæðingarnefndar rúmenska ríkisins hafa staðið undanfarin tvö ár. Auk Ford sýndu GM og rússneska fyrirtækið Russian Machines áhuga á að kaupa verksmiðjuna en hafa dregið tilboð sín til baka og er nú Ford einn um hituna.

Sá eignarhlutur sem Rúmenska ríkið vill selja er 72,4%. Auk þess á einkarekið rúmenskt fjárfestingafélag 22% í henni. Upphæðir í þessu dæmi hafa ekki verið nefndar en Reuters fréttastofan greinir frá því að þegar rúmenska ríkið keypti verksmiðjuna út úr þrotabúi Daewoo í fyrra hafi það greitt 61 milljón dollara fyrir hana.

En það eru fleiri bílaframleiðendur sem hyggja að því sama og Ford: Í tilkynningu frá Volkswagen segir að stjórn fyrirtækisins íhugi alvarlega að reisa bílaverksmiðju í Bandaríkjunum. Gengi dollarans sé lágt og því borgi það sig að framleiða bíla fyrir Bandaríkjamarkað á heimavelli í stað þess að gera það í Evrópu þar sem gengi evrunnar gagnvart dollarnum sé mjög hátt. VW á að vísu verksmiðju í Mexíkó þar sem byggðir eru VW Jetta og Nýbjallan og er verksmiðjan rekin á fullum afköstum.

Í gær hófst svo bygging nýrrar bílaverksmiðju Nissan í St. Pétursborg í Rússlandi. Áætlaður kostnaður við byggingu hennar er 200 milljónir dollara. Framleiddir verða 50 þúsund bílar á ári í verksmiðjunni sem hugsaðir eru fyrir Rússlandsmarkað. Flestir hlutar bílanna verða framleiddir í Rússlandi sjálfu af rússneskum undirframleiðendum. Ef efturspurn verður umfram framleiðslugetu verksmiðjunnar verður auðvelt að stækka hana og auka afkastagetuna.