Ford lækkaði laun forstjórans um 37%
Alan Mulally forstjóri Ford Motor Company hafði 13,57 milljón dollara í heildar-árstekjur á árinu 2008. Inni í þeirri tölu eru allir bónusar, kaupaukar og hlunnindi.
Þó þetta geti vart annað en talist ágætis laun, ekki síst með hliðsjón af því hversu illa gengur í bandaríska bílaiðnaðinum, þá eru laun forstjórans árið 2008 37 prósentum lægri en þau voru árið þar á undan – 2007. Og laun hans eiga eftir að lækka enn meir því að á þessu ári verða 30 prósent til viðbótar skorin af laununum miðað við launin 2008.
Automotive News greinir frá þessu og bætir við að ekki sé beint grundvöllur fyrir ofur-forstjóralaunum í bandaríska bílaiðnaðinum um þessar mundir. Iðnaðurinn glími við heimskreppu og versta ástand á bílamarkaðinum og minnstu bílasölu í 27 ár. En þrátt fyrir allt þetta segir blaðið að enn ferðist þeir Alan Mullally forstjóri og Bill Ford stjórnarformaður Ford Motor Company í einkaþotum þegar þeir þurfa að bregða sér af bæ.