Ford, Mazda og Volvo sýna ekki í París
Bílasýningin í París stendur nú yfir. Hún er haldin annað hvert ár til skiptis við sýninguna í Frankfurt. Athygli vekur að þrír mikilvægir bílaframleiðendur eru ekki með í París að þessu sinni. Þeir eru Ford, Volvo og Mazda.
Einn af fjölmiðlafulltrúum Ford í Evrópu segir ástæður fyrir fjarverunni nokkrar. M.a. þær að nýjar gerðir séu í undirbúningi sem ekki sé tímabært að sýna á þessu hausti. Og þar sem þátttaka í bílasýningum sé mjög dýrt spaug sé mikilvægt að vlja rétta sýningarstaðinn og -stundina. Parísarsýningin sé ekki síst útstillingargluggi franska bílaiðnaðarins og því hafi sú ákvöðrun verið tekin að halda sig til hlés um sinn en standa að eigin smærri viðburðum hér og þar eftir hentugleikum.
Svipaðar skýringar gefa fulltrúar Mazda og segja að þar sem ákveðið hafi verið að taka þátt í bílasýningunni í Los Angeles í nóvembermánuði enda séu Bandaríkin mjög mikilvægur markaður fyrir Mazdabíla. Þar verði því frumsýndar nýjustu gerðir Mazdabíla. Fjarveran frá París nú sé alls ekkert merki um að Mazda hafi gefið París og Frakkland endanlega upp á bátinn.
Það hefur Volvo hins vegar þegar gert því árið 2014 lýstu forráðamenn Volvo þeirri stefnu að taka þátt í aðeins einni stórri bílasýningu á hverju markaðssvæði; Genf fyrir Evrópu, Detroit fyrir Bandaríkin og Bejing og Shanghai fyrir Asíu.