Ford selur Aston Martin
Aston Martin DB5 árgerð 1964.
Ford hefur selt sportbílasmiðjuna Aston Martin. Gengið var frá sölunni sl. mánudagskvöld við kaupandann sem er breskt fjárfestingafélag en meðal eigenda þess er breski bílamaðurinn David Richards, eigandi bílahönnunar- og bílasportfyrirtækisins Prodrive í Bretlandi.
Nýju eigendurnir borguðu um 53 milljarða ísl. kr. fyrir Aston Martin og þar með er þetta gamalgróna eðalbílafyrirtæki orðið al-breskt á nýjan leik. Eftir því sem best er vitað er enginn Aston Martin bíll í umferð á Íslandi en frægð tegundarinnar á heimsvísu hefur vafalaust risið hæst þegar Aston Martin bíll var settur undir sögu- og kvikmyndahetjuna James Bond upp úr miðri síðustu öld og síðan aftur í nýjustu Bond-myndinni frá síðasta ári.
Aston Martin varð til árið 1913 og hefur lengstum byggt sportbíla og sportlega bíla, stundum í samvinnu við aðra bílaframleiðendur eins og t.d. Citroen. Á stríðsárunum 1939-1945 lá bílaframleiðslan niðri en verksmiðjan framleiddi vélar og vélahluti í flugvélar. Árið 1947 keypti traktora- og landbúnaðarvélafyrirtækið David Brown Aston Martin. Þá var byrjað að auðkenna einstakar gerðir Aston Martin bíla með bókstöfunum DB og síðan tölustaf. Þannig hafði James Bond bíllinn frægi auðkennið DB5 en hann kom fram á sjónarsviðið árið 1963.
Ford keypti meirihluta hlutabréfa í Aston Martin árið 1987 og eignaðist svo öll hin hlutabréfin í félaginu árið 1994. Seint á síðasta ári tilkynnti svo William Clay Ford forstjóri Ford Motor Company að félagið væri til sölu. Á síðasta ári voru byggðir 6500 Aston Martin bílar. Á myndinni sést Sean Connery sem James Bond halla sér upp að sínum albreska Aston Martin.