Ford Super Duty fyrir smyglara
Ford F-250 Super Duty.
Dálkahöfundur dagblaðs nokkurs í Texas heldur því fram að svokallaðir Super Duty pallbílar frá Ford, sem eru fjórhjóladrifnir, séu uppáhaldsbílar og fyrsti valkostur þeirra sem stunda það að smygla fólki og eiturlyfjum inn í Bandaríkin.
Glæpamennirnir steli slíkum bílum þegar þörf er á stóru og sterku farartæki með mikið flutningsrými og burðarþol, farartæki sem er hátt undir og með drifi á öllum hjólum sem kemur sér vel þegar þarf að stinga af lögreglu og tollgæslu úti í eyðimörkinni á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Þá dragi það ekki úr vinsældum þessara Ford Super Duty bíla að auðvelt sé að stela þeim. Einungis þurfi sæmilegt skrúfjárn til að brjóta upp stýrislásinn og koma bílnum í gang.
Greinarhöfundur vitnar í upplýsingar frá lögreglunni í Houstonborg í Texas. Samkvæmt þeim var árið 2007 stolið 1.245 Ford F-250 og Ford F-350 Super Duty pallbílum úr innkeyrslum við heimahús í borginni, eða 40% fleiri en árið á undan. Þetta er sérkennilegur vöxtur í ljósi þess að bílaþjófnuðum almennt fækkaði í borginni milli þessara sömu ára.