Ford Transit öruggastur
Euro NCAP hefur lokið því að árekstraprófa nokkra af vinsælustu smárútunum/stjórfjölskyldubílunum í Evrópu í dag. Af þeim sex bílum sem prófaðir voru er Ford Transit Custom sá eini sem náði fimm stjörnum. Hyundai H1 náði þremur stjörnum og sömuleiðis Fiat Scudo. Renault Trafic náði einungis tveimur stjörnum.
Nokkrir þessara bíla eru á markaði í Evrópu undir fleiri tegundarheitum. Þannig fæst Fiat Scudo einnig sem Peugeot Expert og Citroen Jumpy. Þá fæst Renault Trafic einnig sem Opel/Vauxhall Vivaro og Nissan Primastar.
Bílarnir voru prófaðir á sömu forsendum og Euro NCAP prófar aðra fólksbíla. Þær prófanir eru verulega víðtækari og nær hinum kalda raunveruleika en þær lögbundnu opinberu prófanir sem nýir bílar þurfa að standast til að hljóta gerðarviðurkenningu. Niðurstöður fyrir þessa bíla eru þess eðlis að Euro NCAP hvetur bílaframleiðendur til að gefa öryggisþáttum þeirra meiri gaum og búa þá betur úr garði með hliðsjón af öryggi fólksins í þeim. Jafnframt hvetur Euro NCAP lögjafann til að endurskoða þær vægu kröfur sem gerðar eru til bíla af þessu tagi..
Dr Michiel van Ratingen forstjóri Euro NCAP sagði þegar niðurstöðurnar voru gerðar opinberar í morgun að í þetta sinn hefði Euro NCAP beint kastljósinu að 8-9 manna bílum. Þessir bílar væru talsvert notaðir sem leigubílar fyrir smærri hópa og eins sem heimilisbílar stórra fjölskyldna. Þeir væru oftast byggðir á bílum sem upphaflega voru hannaðir sem sendibílar og örygisbúnaður þeirra oftar en ekki fátæklegri en í fólksbílunum og sjaldnar uppfærður en í þeim. „Ef þú sem fjölskyldumaður/kona með mörg börn og hefur áhuga á að eignast bíl sem rúmar allan hópinn saman, hafðu þá fyrir alla muni í huga að öryggisbúnaður þessara bíla er sjaldnast af nýjustu og bestu gerð,“ sagði van Ratingen.
Hann sagði að ýmsir framleiðendur þessarar gerðar b´la hefðu vissulega brugðist vel við tilmælum Euro NCAP og útbyggju þá sendibíla sem aðlagaðir eru að þörfum fjölskyldna betur og þá í samræmi við þær kröfur sem Euro NCAP gerir til öryggisbúnaðar í fólksbílum. Um þetta væri Ford Transit Custom bíllinn lýsandi dæmi. Í honum væru m.a. loftgardínur sem verja fólk í hliðarárekstrum. Þá væri fáanlegur í hann svonefndur Lane Keeping Alert búnaður sem les veglínur og varar ökumann við ef bíllinn stefnir útaf eða yfir á rangan vegarhelming.
„Við erum bjartsýn á að öryggi þessara bíla eigi eftir að stórbatna á næstu fáu árum. Öryggisþáttum þeirra hefur lítt verið sinnt hingað til en það virðist strax vera að breytast,“ sagði van Ratingen ennfremur.