Ford veðjar á rafmagnið
Ford hyggst í auknum mæli veðja á rafmagn sem orkugjafa fyrir bíla og ætlar að verja til tilrauna og rannsókna um 20 milljörðum ísl. kr. á næsta ári. Þá er væntanlegur á markað í Evrópu nýr Ford Fusion tvinnbíll sem sagður er verða sparneytnasti millistærðarbíll veraldar.
Hjá Ford starfa um þessar mundir rúmlega þúsund verkfræðingar einvörðungu við þróun og tilraunir með rafbíla. Margir þessara verkfræðinga starfa við nýja rafbílamiðstöð Ford í Dearborn í Michigan og er dagskipan þeirra sú að hraða þróun rafbílanna um 25 prósent. Það ætla menn að gera m.a. með þróun betri rafgeyma sem gefa bílunum meira drægi.
Joe Bakaj framkvæmdastjóri Ford Powertrain Engineering segir við fjölmiðla að góðu fréttirnar fyrir almenning séu þær að bílakaupendur fái úr fleiru að velja alveg á næstunni og nýjasta og besta tækni hvers tíma ferði mun fljótar aðgengileg öllum. Næsta kynslóð raf- og tvinnbíla muni verða 30% ódýrari í framleiðslu sem þýði það að verð til kaupenda lækkar verulega. Fimm nýir bílar ýmist tvinnbílar eða hreinir rafbílar séu ennfremur væntanlegir á markað strax á næsta ári.
Byrjað var að framleiða Ford Focus sem hreinan rafbíl síðla árs 2011. Hleðslutími rafgeymanna í honum er sagður einungis helmingur hleðslutímans fyrir Nissan Leaf, eða fjórar klst. Á næsta ári er svo væntanlegur á Evrópumarkað tvinnbíllinn Ford Fusion sem fyrr er sagt. Síðan kemur rafbíllinn ElectricC-Max Hybrid sem sagður er verða bæði sparneytnari og ódýrari en Toyota Prius V." Fyrir áramót kemur tengiltvinnbíllinn C-Max Energi en samanlagt drægi hans á rafmagni og jarðefnaeldsneyti er 880 km. Þá eru væntanlegur síðar á næsta ári Ford Mondeo tvinnbíll með svipuðum hreyfibúnaði og fyrrnefndur Ford Fusion.