Ford veðsetur Volvo

http://www.fib.is/myndir/Fordlogo.jpg
Ford hefur veðsett flestar eigur sínar sem einhvers virði eru, þar á meðal er Volvo í Svíþjóð. Fyrirtækið hefur tekið 18 milljarða dollara lán til að tryggja starfsemi sína meðan á núverandi endurskipulagningu stendur.

Ný fjárhags-/lausafjáráætlun upp á samtals 38 milljarða dollara verður tilbúin í síðasta lagi í desemberlok. Hún á að tryggja fyrirtækinu bæði lausafé, aðgang að lánsfé og greiðslufrestum svo fyrirtækið geti mætt ófyrirséðum vandamálum í rekstri meðan á endurskipulagningunni stendur að því er segir í fréttatilkynningu frá Ford í Detroit.

Hingað til hefur Ford ekki þurft að leggja fram tryggingar fyrir lánum, en eins og nú er komið er ástandið það alvarlegt að slíkt reynist nauðsynlegt til að fá yfirleitt fyrirgreiðslu. En góðar tryggingar eru auðvitað líka ávísun á betri lánskjör hjá peningastofnunum.

Hluti af endurskipulagningunni hjá Ford er, eins og fram hefur komið áður hér á fréttavef FÍB,  fólginn í því að leggja niður einar 12 verksmiðjur og segja upp um 45 þúsund starfsmönnum í áföngum.

Fyrstu níu mánuði þessa árs tapaði Ford um 7 milljörðum dollara og búist er við að tap ársins verði í kring um 10 milljarðar. En í frétt Ford segir að fyrirtækið verði farið að skila hagnaði á ný árið 2009.