Formaður samgöngunefndar fagnar tillögu FÍB um kílómetragjald

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og formaður Umhverfis- og samgöngunefndar, tek­ur vel í til­lögu Fé­lags ís­lenskra bif­reiðaeig­enda (FÍB) um kíló­metra­gjald. Hann seg­ir að gjaldið sé góður grunn­ur að fjár­mögn­un vega­kerf­is­ins. Hann segist fagna því að bif­reiðaeig­end­ur komi með svona til­lögu og hugsi í lausn­um. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli hans í viðtali í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

FÍB, kynnti í vikunni á blaða- og fréttafundi tillögu um kílómetragjald sem komi í stað núverandi tekjuöflunar ríkissjóðs af eldsneyti á ökutæki. FÍB hefur þróað reikniformúlu fyrir kílómetragjald sem endurspeglar raunveruleg afnot allra ökutækja af vegakerfinu en mætir um leið þörf fyrir orkuskipti í samgöngum.

Kílómetragjaldið geti jafnframt komið í stað kostnaðarsamra áforma um sérstaka gjaldtöku vegna nýframkvæmda. Á vefsíðu FÍB er reiknivél sem gerir bíleigendum kleift að sjá hvernig kílómetragjald kemur út.

Vonandi getum við tekið höndum saman og innleitt þetta sem fyrst

,,Mér líst mjög vel á þessar hugmyndir frá FÍB og fagna þeim. Vonandi getum við tekið höndum saman og innleitt þetta sem fyrst, jafnvel um næstu áramót. Það er líka fagnaðarefni að svona tillaga komi frá fagaðila eins og FÍB. Ég tek vel í það að við ein­föld­um gjald­töku í um­ferð í eitt kíló­metra­gjald og ég held að það skipti máli að við vinn­um hratt í því að inn­leiða þess­ar til­lög­ur eða eitt­hvað í takt við þær,“ segir Vilhjálmur.

Kíló­metra­gjald sann­gjörn leið til að fjár­magna upp­bygg­ingu og rekst­ur vega­kerf­is­ins

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur ennfremur að hann telji kíló­metra­gjald gæti orðið sann­gjörn leið til að fjár­magna upp­bygg­ingu og rekst­ur vega­kerf­is­ins. Það sé nauðsyn­legt að finna leiðir til að fjár­magna vega­kerfið og brýnt að það sé ein­falt og gagn­sætt kerfi. Honum finnst þó að enn megi hafa vegtolla til sér­tækr­ar gjald­töku. Á ein­stök­um stöðum myndi þá vera gjald­taka til þess að fjár­magna ákveðnar fram­kvæmd­ir. Hann seg­ist jafn­vel ímynda sér að einkaaðilar geti komið að fram­kvæmd­um.