Formúlu 1 tvinnbílar á næsta ári

http://www.fib.is/myndir/M.Mosley.jpg
Max Mosley forseti FIA, heildarsamtaka bifreiðaeigendafélaga og bílasportsins lýsti hugmyndum sinum um orkusparnað í Formúlu 1 á málþingi í tengslum við bílasýninguna í Genf í gær. Viðstaddir voru meðal annarra tækni- og þróunarstjórar og sérfræðingar flestra stærstu bílaframleiðenda heims.

Forseti FIA lýsti þeim hugmyndum sem liggja að baki nýrra reglna og reglugerðadraga um Formúlu 1. Tilgangurinn er sá að innleiða á áföngum fjölmörg ný kerfi í bílana sem hafa þann tilgang að nýta eldsneyti Formúlubílanna betur og endurnýta hreyfiorku þeirra. Max Mosley sagði að þessi mál skiptu bæði bílasportið og bílaiðnaðinn miklu mál og ekki síst almenna bíleigendur og bílnotendur en umhverfisvitund meðal þeirra fari sívaxandi.

„Fyrsta skrefið verður stigið 2009 þegar tvinnkerfi (hybrid) verður innleitt í Formúlu 1. Það er fyrsta skref langtímaáætlunar sem hefur það meginmarkmið að beina þeirri gríðarlegu rannsóknavinnu sem nú er lögð í bílasportið meir í leit að betri orknýtingu. Þróun sjálfra vélanna hefur nú verið stöðvuð. Það þýðir að meira vélarafl verður einungis framkallað með betri nýtingu eldsneytis, með öðrum orðum að eldsneytisbruninn skili meiri gagnlegum afköstum," sagði Max Mosley.

Tvinnkerfið sem innleitt verður í Formúlubílana á næsta ári nefnist KERS (Kinetic Energy Recovery System), sem þýða mætti sem hreyfiorku-endurnýtingarkerfi. Max Mosley sagði að innleiðing þess væri bylting í Formúlunni. Það myndi gera Formúlu 1 mun umhverfismildari en nokkru sinni fyrr og ætti eftir að hafa mikil áhrif á bílaiðnaðinn og bílatæknina í framtíðinni og draga þar með stórlega úr CO2 losun frá bílum og lækka eldsneytiskostnað bifreiðanotenda.