Fórnarlamba umferðarslysa minnst
Á sunnudag, þann 18. nóvember, á alþjóðlegum minningardegi fórnarlamba umferðarslysa, verður haldin minningarathöfn við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Athöfinin hefst kl. 11.00 með því að minnst verður látinna og þær starfsstéttir sem koma að björgun og aðhlynningu, verða heiðraðar. Starfshópur innanríkisráðuneytisins um Áratug aðgerða í umferðaröryggi gengst fyrir minningarathöfninni en í honum eru fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalagsins, Vegagerðarinnar, innanríkisráðuneytisins, Félags íslenskra bifreiðaeiganda, Landssambands hjólreiðamanna, Umferðarstofu, Landlæknisembættisins, velferðarráðuneytisins, Sniglanna, tryggingarfélaga, Lögregluskólans og Rannsóknarnefndar umferðarslysa.
Landsmenn eru hvattir til að minnast á þessum degi þeirra sem látið hafa lífið í umferðinni og þá sérstaklega á milli klukkan 11 og 12. Öllum er velkomið að taka þátt í athöfninni í Fossvogi en fólk er hvatt til að gæta þess sérstaklega að ökutækjum sé ekki lagt þannig að þau hindri aðgengi að bráðamóttöku Landspítalans. Farið hefur verið þess á leit við trúfélög og söfnuði að þeir minnist fórnarlamba umferðarslysa í hugleiðslu og predikunum dagsins.
Klukkan 10:45, rétt fyrir athöfnina sem hefst klukkan 11:00, mun þyrla Landhelgisgæslunnar lenda við þyrlupall Bráðamóttökunnar. Að því loknu verður ökutækjum viðbragðsaðila sem koma á vettvang umferðarslysa stillt upp við þyrluna. Fulltrúar þessara starfsstétta stilla sér upp að baki forseta Íslands sem flytja mun stutt ávarp og boða einnar mínútu þögn klukkan 11:15.Að lokinni einnar mínútu þagnarstund munu tveir aðstandendur sem misst hafa ástvini sína í umferðarslysum segja stuttlega frá reynslu sinni.
Dagskráin að öðru leyti verður sem hér segir:
- 10:45 Þyrla landhelgisgæslunnar lendir við Landspítalann Fossvogi. Að því loknu munu aðrir viðbragðsaðilar stilla ökutækjum sínum upp við þyrluna.
- 11:00 Stjórnandi athafnarinnar setur samkomuna.
- 11:05 Forseti Íslands flytur ávarp og segir m.a. frá tilefni dagsins.
- 11:15 Mínútu þögn til minningar um fórnarlömb umferðarslysa.
- 11:16 Stjórnandi kynnir 2 aðstandendur segja reynslusögur sínar.
- 11:37 - 11:40 Stjórnandi segir athöfninni formlega lokið.
- Á hverju ári látast um 1,2 – 1,4 milljónir manna í umferðarslysum í heiminum og hundruð þúsunda bíða varanlegan skaða. (tekið af http://www.roadpeace.org/remembering/world_day_of_remembrance/)
- Þetta er u.þ.b. 2% allra dauðsfalla og er þetta meira en hlutfall þeirra sem látast t.d. af völdum berkla og malaríu sem eru sjúkdómar sem miklum fjármunum er eytt í að uppræta og koma í veg fyrir.
- Á Íslandi hafa 188 látist í 166 umferðarslysum sl. 10 ár. (ritað 9. nóvember 2012) og um 1700 hlotið mikil meiðsli
- Fyrsta nóvember 2012 höfðu 965 einstaklingar látist í umferðarslysum á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð þann 26. maí árið 1968.
- Á Íslandi verður fórnarlamba umferðarslysa minnst í kirkjum landsins og trúarsöfnuðum og er fólk beðið um að votta þeim og aðstandendum virðingu sína í predikunum og hugleiðslum dagsins.
- Banaslys í umferðinni eru algengasta dánarorsök ungs fólks í heiminum í dag og það sem af er árinu 2012 hafa 7 manns látist í umferðinni hér á landi. Á sama tíma í fyrra höfðu 11 látist.
- Í upplýsingum sem Umferðarstofa tók saman um algengustu dánarmein ungs fólks á Íslandi á aldrinum 17-26 ára kemur í ljós að á árunum 1999 til 2008 voru umferðarslys algengasta dánarorsök kvenna á þessum aldri og er hún á þessu tímabili tvöfalt algengari orsök en sjálfsvíg sem að er næst algengasta dánarorsök kvenna í þessum aldurshópi.