Fórnarlamba umferðarslysa minnst
Haldin var falleg athöfn við Landspítalann í Fossvogi í gær til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni. Frá því að fyrsta banaslysið var skráð í umferðinni hér á landi hafa 1624 látið lífið. Dagurinn er jafnframt til að heiðra og færa viðbragðsaðilum hjartanlegar þakkir fyrir starf sitt.
Að lokinni athöfn færði frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Jón Gunnar Jónsson forstjóri Samgöngustofu og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar starfsfólki bráðamóttökunnar sérstakan þakklætisvott fyrir starf sitt.
Í ár var kastljósi dagsins beint að hættunni sem getur skapast á að sofna eða dotta undir stýri vegna þreytu ökumanna. Rannsóknir Rannsóknarnefndar samgönguslysa hafa sýnt að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferðinni.
Tilgangurinn með deginum er að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni, leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni. Þá er rík hefð fyrir því á minningardeginum að færa starfsstéttum, sem sinna björgun og aðhlynningu þegar umferðarslys verður, þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf.
Minningardagurinn er alþjóðlegur undir merkjum Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu. Um það bil 3.600 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum.
Að baki minningardeginum standa Samgöngustofa, innviðaráðuneytið, Sjálfsbjörg, Landsbjörg, Neyðarlínan, Lögreglan og Vegagerðin.