Fornbílarallinu lokið
Breskur AC sportbíll beygir á fullri ferð.
Þolakstursralli 64 fornbíla umhverfis Ísland lauk sl. föstudag við Perluna í Öskjuhlið. Síðasta sérleiðin var á neðra bílastæðinu við Perluna þar sem hinir öldnu gæðingar sýndu sumir hverjir þvílíka tilburði að nýjustu bílar gætu verið fullsæmdir af, eins og t.d Bugatti bíllinn á myndinni hér að neðan.
Keppnin var skipulögð af bresku fornbílafélagi sem nefnist HERO eða Historic Endurance Rallying organisation. Keppnisbílarnir og áhafnir þeirra komu víða að. Flestir þó frá Bretlandi en einnig frá Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi og jafnvel frá Cayman eyjum. Einn bíll og áhöfn hans var frá Íslandi - eldri gerðin af Trabant.
Mörgum íslenskum fornbílamanninum hefur sjálfsagt blöskrað hversu mikið eigendur þessara fornu og sumra mjög verðmætu bíla leggja á þá að fara á þeim í þolakstur um hvippinn og hvappinn og taka fjölmarga útúrkróka eftir mjög slæmum malarvegum. Einn keppenda sem ók Bentley frá fjórða áratugi síðustu aldar skýrði þetta út fyrir tíðindamanni FÍB þannig að afi sinn hefði keypt Bentleyinn nýjan til þess að leika sér á honum. Þegar hann svo gaf honum bílinn fyrir margt löngu hefði hann tekið af sér loforð um að gera slíkt hið sama. Sá gamli myndi áreiðanlega snúa sér í gröfinni ef hann sviki það loforð.
Ljóst er að keppendur lögðu mikið í sölurnar, bæði fé og fyrirhöfn, til að taka þátt í viðburðinum. Þátttökugjald nam rúmri einni milljón ísl. króna. Innifalið í því var flutningur á bíl milli Bretlands og Íslands báðar leiðir, keppnisgjöld og gisting.
Keppendur hrepptu rysjótt veður og miklar rigningar meðan keppnin fór fram. Það hefti þó lítið för gömlu bílanna því að allir nema tveir eða þrír luku keppni. Keppendur sem rætt var við á föstudag sögðust mjög ánægðir með hvernig til tókst nú og kváðust ætla að koma aftur til svipaðrar keppni sem fram myndi fara á Vestfjörðum vorið 2010.
Gamli Bugatti bílinn fór létt með að reykspóla í beygjunum á síðustu sérleiðinni við Perluna. Á hinni myndinni er Volvo PV 544 að koma í mark.