Forsendur Evróputilskipunar um lífdísilolíu sæta alvarlegri gagnrýni
Þýskir vísindamenn hafa hrakið staðhæfingar, m.a. frá Evrópuráðinu, um að lífdísilolía sem framleidd er úr repjufræjum dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 38 prósent hið minnsta miðað við sama magn af hefðbundinni dísilolíu sem unnin er úr jarðolíu. Það eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. 35 prósent er það lágmark sem Evrópuráðið setti inn í tilskipun um endurnýjanlega orkugjafa árið 2009.
Vísindamennirnir tveir, sem heita Gernot Pehnelt og Christoph Vietze, starfa við Sciller háskólann í Jena í A. Þýskalandi. Þeir beittu nákvæmlega sama reiknilíkani og fræðimennirnir sem reiknuðu þessa hluti út fyrir Evrópuráðið á sínum tíma. En gagnstætt Evrópuráðsmönnunum varð útkoma Þjóðverjanna tveggja sú að í átta af 12 reikniforsendum eða „sviðsetningum“ (Scenarios) tókst ekki að ná 35 prósenta lágmarkinu. Besti árangur reyndist vera allt að 30%. (Sjá skýrsluna sem PDF skjal hér).
Niðurstöður vísindamannanna tveggja koma dálítið sem þruma úr heiðskíru lofti en einmitt núna standa repjuakrarnir í blóma og repjuolíuframleiðslan við það að fara í fullan gang. Vegna hins meinta sparnaðar í útblæstri gróðurhúsalofts hefur eftirspurn eftir lífrænni olíu vaxið mjög. Einnig hafa nýjustu fyrirætlanir um að ná CO2 útblæstri bíla niður fyrir 95 grömm á kílómetra og kröfur um minni útblástur frá flugvélum og hernaðarfarartækjum ýtt undir aukna eftirspurn. Repjuakrar eru af þessum ástæðum orðnir mjög fyrirferðarmiklir í Frakklandi og Þýskalandi og ræktunin þegar farin að hafa þau áhrif að verð á korni og fóðurvörum er tekið að hækka umtalsvert.
Þýsku vísindamennirnir notuðu við útreikningana töluleg gögn sem eru aðgengileg öllum. Þeir kvarta hins vegar undan því að Evrópusambandið hafi þvælst fyrir rannsókninni með því að hunsa beiðnir þeirra um nánari upplýsingar og aðgang að gögnum. Fleiri en þeir hafa kvartað undan hinu sama og telja að hinn umhverfislegi ávinningur af repjuolíunni sé stórlega ofmetinn af Evrópuráðinu og sé meir í ætt við pólitík en vísindi.
Fréttamaður FiA í Brussel sem leitaði viðbragða hjá Evrópuráðinu við skýrslu þýsku vísindamannanna fékk þau svör hjá talskonu ráðsins að hún óskaði ekki eftir því að svara þeim efnislega. Hún sagði hins vegar að …„misjafnir skoðendur geta komist að mismunandi niðurstöðum, eftir því hvaða aðferðum er beitt.“ Hún sagði ennfremur rangt að upplýsingum og ítargögnum hefði verið haldið leyndum. Þau væru öll aðgengileg á sérstakri heimasíðu.