Forstjóri Audi handtekinn í München
Saksóknarar í München í Þýskalandi tilkynntu í morgun um handtöku á Rupert Stadler stjórnarformanni þýska bílaframleiðandans Audi. Handtökuna má rekja til rannsóknar á nýju útblásturshneyksli í Þýskalandi og vilja saksóknarar með handtökunni koma í veg fyrir að Stadler komi mikilvægum gögnum undan sem gætu reynst mikilvæg við rannsóknina.
Þess má geta að Audi innkallaði hátt í 900 þúsund bíla vegna málsins á síðasta ári en eftir skoðun þurfti ekki að laga nema nokkuð hundruð bíla. Hlutabréf í Audi snarlækkuðu í kjölfar handtökunnar í morgun en stjórnarformaðurinn verður færður til skýrslutöku síðar í vikunni.
Þetta mál minnir óneitanlega á útblásturshneykslið hjá Volkswagen sem upp kom í september 2015. Í stuttu máli þá var komið fyrir hugbúnaði eða forriti í tölvum bílanna sem skynjar það þegar byrjað er að mengunarmæla þá.
Búnaðurinn gangsetur þá hreinsibúnaðinn í útblásturskerfi bílsins sem annars er lítt eða ekki virkur í venjulegri daglegri notkun hans. Þetta þýðir að mengunarmælingin sýnir mjög fegraða mynd af losun NOx sambanda og sótagna sem eru krabbameinsvaldar.