Forstjóri Fiat Chrysler fallinn frá
Ítalinn Sergio Marchionne, forstjóri Fiat Chrysler, féll frá fyrir helgina en hann var af mörgum talinn í hópi merkustu frumkvöðla sem fram hafa komið í bílaiðnaðinum. Fráfall hans bar að með nokkuð skjótum hætti en fyrir nokkrum vikum gekkst hann undir aðgerð á öxl en heilsu hans hrakaði síðan jafnt þétt. Ýmsir fylgikvillar fylgdu í kjölfarið sem leiddu hann að lokum til dauða. Marchionne var 66 ára að aldri þegar hann lést í borginni Zürich í Sviss.
Marchionne var maðurinn á bak við samruna Fiat og Chrysler þegar síðara nefnda fyrirtækið var keyrt í gjaldþrot 2009. Hann stýrði Chrysler frá 2009 og Fiat Chrysler þegar fyrirtækin voru sameinuð 2014. Frá þeim tíma jukust umsvif fyrirtækisins gífurlega. Ferrari var lengi vel stolt fyrirtækisins en Marchionne var mikið í mun að koma Ferrari til veg og virðingar á nýjan leik í Formulu kappaksturskeppninni. Það tókst honum svo um munaði.
Hlutdeild fyrirtækisins á bílamarkaðnum óx jafnt og þétt og varð það sjötti stærsti bílaframleiðandi heims. Umskipti fyrirtækisins undir stjórn hans snérust til betri vegar á flestum sviðum. Mikill skuldahali var greiddur upp og bjartir tímar í harðri samkeppni blöstu við. Tekjur fyrirtækisins drógust þó saman á síðasta ári en engu að síður var Marchionne bjartsýnn á framhaldið og taldi tækifærin óendanleg.
Marchionne var skarpgreindur og með útsjónarsemi og elju kom hann fyrirtækinu í fremstu röð. Hann hlaut sína menntun í Kanada og Bretlandi og var með háskólagráður í lögfræði og heimspeki. Hann þótti harðsnúinn í viðskiptum og mátti stundum þola mikla gagnrýni. Hann stóð fastur á sínu og fyrirtækið og gangur þess átti hug hans allan. Hann fór sínar eigin leiðir í stjórnun og skipulagningu almennt og frægt var þegar hann færði skrifstofu sína og kom sér fyrir á svæði á meðal almennra starfsmanna.
Marchionne hafði áform uppi að láta af störfum á næsta ári en hann hafði starfað hjá fyrirtækinu frá 2004. Hann ætlaði ekki alveg að hverfa af vettvangi en hugur hans stefndi að stjórnarsetu innan fyrirtækisins.
Í kjölfar andlát hans lækkuðu hlutbréf Fiat Chrysler nokkuð í verði og um tíma var lokað fyrir viðskipti með bréf fyrirtækisins. Stjórn Fiat Chrysler hefur komið saman til fundar eftir að Marchionne lést og hefur verið tilkynnt að Mike Manley, stjórnandi Jeep, tekur við stjórninni af Sergio Marchionne.