Forstjóri Honda lækkaður í tign
Í frétt frá Honda Motor Co. nú í morgun segir að forstjórinn Takanobu Ito (sjá mynd) sé nú að yfirgefa forstjórastólinn og að arftakinn sé Takahiro Hachigo sem verið hefur framkvæmdastjóri Honda í Kína. Umskiptin hafi verið endanlega ákveðin á nýafstöðnum hluthafafundi félagsins. Hondabílar hafa fallið talsvert í áliti að undanförnu í kjölfar alvarlegra galla í loftpúðum. Vegna þeirra hafa milljónir Hondabíla verið innkallaðir. Loftpúðarnir sem um ræðir eru frá einum og sama undirframleiðandanum, Takata, og hafa m.a. valdið alvarlegum höfuðmeiðslum hjá þeim sem þeir áttu að verja í slysum. Forstjóraskiptin nú tengjast þessu máli að sögn Automotive News.
Nýi forstjórinn Takahiro Hachigo er 55 ára gamall. Hann byrjaði að vinna hjá Honda árið 1982 sem verkfræðingur í bílahönnunardeild og átti stóran þátt í tilurð fyrsta fjölnotabíls Honda sem framleiddur var í Bandaríkjunum en það er Honda Odyssey. Milli 2004-06 var Hachigo framkvæmdastjóri Honda i Bandaríkjunum og vann jafnframt að hönnun og þróun nýrra gerða Honda og Acura bíla fyrir bandarískan markað.