Forstjóri N1 telur ekki ástæðu til að birta bensínverð

Fram kom í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að Hermann Guðmundsson forstjóri N1 telur ekki ástæðu til að birta bensínverð á heimasíðu N1.  N1 er eina fyrirtækið sem rekur bensínstöðvar hér á landi sem ekki birtir upplýsingar um eldsneytisverð á heimasíðu sinni.  Capacent Gallup kannaði viðhorf almennings til verðbirtinga á netinu og niðurstaðan var ótvíræð.  Rúmlega þrír af hverjum fjórum landsmönnum telja mikilvægt að olíufélög birti upplýsingar um verð á vefsíðum sínum.  Í frétt RÚV kom fram að forstjóri N1 telji könnun Gallup ekki gefa rétta mynd af viðhorfi fólks þótt í henni felist vísbending.  „Reynslan hafi sýnt að fáir skoðuðu verðið á vefnum“. Forstjórinn telur ekki rétt að birta verð á bensíni eða dísilolíu þegar ekki er hægt að nálgast verð á hosuklemmum á sama vef. 

Ofan á þessa upplýsingafælni þá hefur N1 ítrekað hunsað tilmæli Neytendastofu um að hætta að bjóða afslætti á eldsneyti á bensínstöðvum með skiltum sem á stendur eingöngu mínus krónutala t.d. -3 kr.  Neytendastofa vitnar í lög og reglur um verðmerkingar og telur þessi afsláttarskilti villandi gagnvart viðskiptavinum. 

Það er góður siður í viðskiptum sem öðru að fara að leikreglum.  Esso forveri N1 var til fyrirmyndar varðandi verðupplýsingar til neytenda.  Á heimsíðu N1 kemur m.a. fram að undir nýju nafni muni fyrirtækið markvisst vinna að því að efla og bæta þjónustu og að N1 sé ábyrgur þjóðfélagsþegn.  Feluleikurinn með verðin á heimasíðunni og mínus skiltin eru ekki til marks um ábyrgð og þjónustulund