Förum varlega í umferðinni

Þrír hafa látist í umferðarslysum á síðustu dögum og hafa fjórir látist í banaslysum í umferðinni það sem af er þessu ári. Það er afar mikilvægt að við högum akstri eftir aðstæðum hverju sinni.

Flest slysin verða vegna mannlegra mistaka. Því er mikilvægt að hegðun okkar í umferðinni sé í samræmi við reglur og taki mið af aðstæðum svo að allir komist heilir heim.

Banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru óásættanleg. Mannslíf og heilsa skulu vera í öndvegi og öryggi sett fremst í forgangsröðun.

Í hvert skipti sem við ökum ættum við alltaf að:

  • Spenna bílbeltið áður en bíllinn er settur í gang
  • Ganga úr skugga um að allir farþegar séu spenntir
  • Tryggja að börn séu í viðeigandi öryggisbúnaði

Bílbelti geta dregið verulega úr líkum á alvarlegum meiðslum eða dauða í árekstri. Þau halda þér föstum í sætinu og koma í veg fyrir að þú kastist um inni í bílnum eða út úr honum við árekstur.