Frakkar fá E10 bensín

 http://www.fib.is/myndir/E10_Logo.jpg

Frakkland verður fyrsta landið á evrópska efnahagssvæðinu sem innleiðir E10 sem sérstakan eldsneytisvalkost. E10 er bensín með er að einum tíunda blandað spíra (etanóli). Áfram halda Frakkar samt að fjölga afgreiðsludælum fyrir E85 sem er 15 prósent bensín en 85 prósent etanól eða spíri.  

Afgreiðslustaðir fyrir bæði E10 og E85 eru að sögn franskra stjórnvalda nauðsynlegir í talsverðum mæli um allt Frakkland til að landið geti upfyllt markmið Evrópusambandsins um að innan næstu sex ára verði minnst 6,25 prósent eldsneytis til samgangna endurnýjanleg orka. Árið 2020 á hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum að vera komið upp í 10 prósent.  

-Þetta er skýrt merki til allra Evrópusambandslandanna um að auka notkun etanóls því að etanól er eina efnið sem ekki er jarðefnaeldsneyti og er tiltækt í nægilega miklu magni með svona stuttum fyrirvara,- segir framkvæmdastjóri sænska efnafyrirtækisins Sekab BioFuels & Chemicals við Auto Motor & Sport í Svíþjóð.  

Í Frakklandi er ætlunin að nota fyrst í stað fyrir E10 bensínið þær dælur og tanka á bensínstöðvum landsins sem hingað til hafa verið notaðar fyrir 98 oktana bensín. Fyrstu dælurnar með E10 bensíni verða tilbúnar strax þann 1. apríl nk. Í lok ársins er reiknað með að E10 verði fáanlegt á 75 prósentum franskra bensínstöðva.  Um það bil 60 prósent franska bílaflotans, nánar tiltekið allir bílar frá árgerð 2000 geta ekið á E10 samkvæmt upplýsingum frá franska bílgreinasambandinu.