Frakkland vill vinda ofan af dísilbílavæðingunni

Í Frakklandi eru dísilknúnir bílar nálægt því að vera 80 prósent alls bílaflotans sem er í umferð. Nú ætla stjórnvöld þar að vinda ofan af dísilvæðingunni í áföngum og fækka dísilbílunum mjög með því að skattleggja þá og eldsneytið á þá sérstaklega. Ástæðan er útblásturs- og öragnamengun sem telst heilsuspillandi. Bresk stjórnvöld hyggjast fara svipaða leið og Frakkar og hugleiða nú hvaða leiðir skuli fara í þeim efnum.

Til að ná markmiðum sínum hyggjast Frakkar draga úr eftirspurn eftir dísilolíu með vaxandi sköttum í áföngum. Jafnframt skal takmarka útblástur dísilfólksbíla með því að þrengja mörk leyfilegs magns útblástursefna frá eldri bílum sem þegar eru í notkun og takmarka útblástur frá þeim sem mest, bæði með því að setja í þá hreinsibúnað en líka með því að jafnvel banna akstur þeirra í miðbæjarkjörnum borga og bæja.

http://fib.is/myndir/Paris-mengun.jpg

Manuel Carlos Valls forsætisráðherra Frakklands segir þetta sjálfsagt mál enda séu dísilbílarnir í raun og veru ein stór mistök. „Hér í Frakklandi höfum við lengi veitt dísilvélinni forgang. Það voru mistök sem við nú verðum að vinda ofan af með eins greindarlegum og manneskjulegum hætti sem okkur er unnt,“ sagði forsætisráðherrann við fjölmiðla í byrjun vikunnar.

Vinsældir dísilbílanna í Frakklandi og reyndar flestum öðrum Evrópuríkjum er að rekja til þess að bæði er dísilolían orkuríkari en bensín auk þess sem dísilvélin nýtir orkuna í eldsneytinu mjög vel. Þar af leiðandi eyða dísilbílar færri lítrum og gefa frá sér aðeins minna af CO2 á hvern ekinn kílómetra en ámóta öflugar bensínvélar gera, eða hafa gert framundir þetta. Að auki hafa frönsk stjórnvöld ýtt undir fjölgun dísilbíla með lægri notkunarsköttum. En nú telja flestir að þótt CO2 útblásturinn sé minni, er magn skaðlegra NOx-efnasambanda í dísilútblæstrinum miklu meira og fjarri því að nýjasta og besta öragna-síubúnaði takist að jafna þann mun. Nú á að taka á þessu og strax á næsta ári leggjast skattaafslættir á notkun dísilbíla af og til viðbótar verða nýir mengunarskattar lagðir á dísilolíuna. Þar með hverfur stór hluti þess ávinnings sem eigendur dísilbíla hafa notið til þessa.

Sl. vor lá mengunarský yfir Parísarborg dögum saman. Þann 14. mars mældist magn svonefndra PM10-öragna í loftinu upp á 180 mikrógrömm í rúmmetra. Það er rúmlega helmingi yfir skilgreindum heilsuverndarmörkum sem eru 80 míkrógrömm pr. rúmmetra. Mengunarskýið fór ekki og þann 17. mars var dregið úr bílaumferð í borginni um helming með því að banna notkun bíla eftir því hort síðasta tala í skráningarnúmerinu var jöfn tala eða oddatala. Þetta var í fyrsta sinn í 17 ár sem yfirvöld gripu til slíkra aðgerða.  

Ekki ósvipað ástand var í London um svipað leyti sl. vor. Á Oxford Street mældust loftgæði þau verstu um áratuga skeið og magn natríumoxíðsambanda (NOx) svo mikið að Oxford Street taldist þá einn mest heilsuspillandi staður veraldar að dvelja á í þessu tilliti. Þessi mikla mengun þar hefur síðan að langmestu leyti verið rakin til Lundúnastrætisvagnanna og ófullkomins pústhreinsbúnaðar þeirra.