Framgangur hjá Fiat

http://www.fib.is/myndir/Fiat_logo.jpg

Batinn hjá Fiat heldur greinilega áfram eftir langt tímabil taps og vandræða. Reksturinn náði að komast upp á núllið á síðasta ári og nú liggja fyrir rekstrartölur fyrir fyrsta fjórðung þessa árs og þær eru ekki af verri endanum – hagnaðurinn er um 100 milljónir evra.  Ekkert bendir til annars en velgengnin haldi áfram enn hraðari skrefum.
Sergio Marchionne framkvæmdastjóri Fiat kynnti niðurstöðutölur fyrsta ársfjórðungs á blaðamannafundi fyrr í vikunni og sagði að nánasta framtíð liti bara ansi björt út. Ekkert benti til annars en að markmið um 2,1-2,9 prósenta hagnað af eigin fé næðust á árinu.

Fræðimenn um rekstur bílaframleiðslu segja að það sé ekkert auðvelt verk að ná hagnaði af fjöldaframleiðslu ódýrra smábíla þar sem við sé að eiga manndrápssamkeppni við „lágverðslönd.“ Þeirri samkeppni hefur Fiat mætt– og hyggst áfram mæta með samvinnu við aðra bílaframleiðendur. Á þann hátt geta samvinnuaðilarnir deilt með sér háum þróunarkostnaði og framleiðslukostnaði á einstökum hlutum í bílana. Marchionne sagði á fundinum að fleiri samningar af þessu tagi væru í bígerð og stórtíðinda væri að vænta fyrir lok júnímánaðar.

Á tæknisviðinu hefur Fiat leitast við að ná niður eldsneytiseyðslu bíla sinna með því að þróa sparneytnar vélar, ekki síst dísilvélar og túrbínubensínvélar. Fólksbíladísilvélar Fiat eru í fremstu röð en um þróun þeirra hefur Fiat um árabil átt farsælt samstarf við GM.
Fiat er sá af evrópsku bílaframleiðslufyrirtækjunum sem bestum árangri hefur náð í útloftun á CO2. Meðal CO2 útblástur Fiat bíla er nú 139 g/km sem er ansi nærri kröfum Evrópusambandsins um að meðalútblástur bíla skuli vera mest 130 g/km fyrir árið 2012.