Framkvæmdir á Suðurlandsvegi á áætlun
Umferð verður hleypt á fjögurra kílómetra kafla nýs Suðurlandsvegar frá Selfossi í átt að Hveragerði í sumar. Framkvæmdir við annan áfanga Suðurlandsvegar er á áætlun en verkinu á að ljúka á næsta ári. Samhliða er unnið að því að klára Ölfusveg við Hveragerði með byggingu brúar yfir Varmá.
Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.
„Framkvæmdir hafa gengið nokkuð vel og við erum heldur á undan áætlun þrátt fyrir erfiðan vetur. Þannig ætlum við okkur að hleypa umferð á helminginn af veginum, frá Kirkjuferjuvegi og austur á Selfoss í byrjun júlí,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson, verkstjóri hjá ÍAV en kaflinn er um fjögurra kílómetra langur.
Búið er að ljúka fjölmörgum verkþáttum. Til dæmis er hringtorgið við Biskupstungnabraut að mestu tilbúið að sögn Ágústar. Þá er búið að malbika einn fjórða af veginum frá Þórustaðanámu og að hringtorginu. Verið er að steypa undirgöng við Þórustaðanámu og unnið að veginum frá Ingólfsfjalli vestur að Kirkjuferjuvegi.