Framkvæmdir hafnar við ný gatnamót Borgartúns og Snorrabrautar
Framkvæmdir eru að hefjast við ný gatnamót Borgartúns og Snorrabrautar, sem mun laga þau betur að núverandi gatnakerfi. Í stað beygju á Borgartúni verður það framlengt út að Snorrabraut og í fyrsta áfanga á að opna fyrir hægri beygjur.
Í síðari áfanga verður opnað í gegnum miðeyju Snorrabrautar fyrir vinstri beygju úr Borgartúni. Gatnamótin verða ljósastýrð og samstillt við nærliggjandi gatnamót. Göngu- og hjólaleiðir verða endurbættar, auk þess sem endurnýja á lagnir og færa þær eftir þörfum.
Þessi tenging er fyrsta skrefið í stærri breytingum á gatnakerfi Snorrabrautar, Borgartúns og Bríetartúns frá Sæbraut að Hverfisgötu við Hlemm. Breytingarnar eru í samræmi við deilskipulag sem samþykkt var fyrr á árinu fyrir Hlemm og nágrenni.
Verktakinn ætlar að koma sér fyrir á svæðinu í dag, föstudaginn 9. október. Verkið felst í að grafa og fylla í götu og gangstéttar, grafa og fylla vegna fráveitu- hitaveitu-, háspennu- og götulýsingarlagna, leggja fráveitu-, hitaveitu- og götuljósalagnir, grafa fyrir og leggja ídráttarrör vegna umferðarljósa ásamt tengibrunnum, reisa ljósastólpa, malbika, leggja staðsteyptan kantstein, leggja hellur og ganga frá hliðarsvæðum. Að endingu verður svo gengið frá yfirborði.
Vegna framkvæmdanna verður Borgartúni breytt tímabundið í botnlangagötu á milli Kínverska sendiráðsins og Húss Eflingar. Strætó fer hjáleiðir meðan lokanir vara.