Framkvæmdir hefjast strax um gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurveg
Skrifað hefur verið undir verksamning um gerð mislægra gatnamóta Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurveg. Framkvæmdir hefjast strax enda á verkið að vinnast á skömmum tíma og vera lokið 1. nóvember næstkomandi. Í reynd eru verktakar þegar byrjaðir og hafa komið nú þegar upp vinnubúðum á svæðinu. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðar og veitufyrirtækja.
Byrjað verður á því að færa lagnir af ýmsu tagi og leggja framhjáhlaup áður en hafist verður handa við byggingu brúarinnar sjálfrar. VSÓ ráðgjöf ehf. sinnir eftirliti en þeir áttu lægst boð í það verk upp á 19, 4 milljónir króna, áætlaður verktakakostnaður var 21 milljón króna.
Sjálft verkið kostar mun meira, en Loftorka ehf, og Suðurverk ehf áttu saman lægsta boð upp á 918 milljónir króna en áætlaður verktakakostnaður var 817 milljónir króna. Við bætist síðan ýmist kostnaður við undirbúning og hönnun verksins.