Framkvæmdir við Fossvogsbrú hafnar
Framkvæmdir við Fossvogsbrú eru hafnar en fyrsta skóflustungan var tekin í morgun. Brúin er fyrsta framkvæmdin í borgarlínuverkefninu.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, voru mætt á athöfnina í dag og tóku öll skóflustungur.
Fossvogsbrúin er hluti af Samgöngusáttmálanum og er fyrsta stóra framkvæmdin í borgarlínuverkefninu. Brúin tengir saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavík. Áætluð verklok eru 1. nóvember 2026 fyrir þennan hluta verksins en gert er ráð fyrir að Fossvogsbrú verði tilbúin um mitt ár 2028.