Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta hafist

Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta hafist eftir að Alþingi samþykkti í dag nauðsynlega lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun brúarinnar og vegtenginga. Undirbúningur verksins er kominn vel á veg. Gert er ráð fyrir að skrifa undir samning við verktaka í Golfskálanum á Selfossi kl. 15 á miðvikudaginn, 20. nóvember, og taka síðan fyrstu skóflustunguna vegna framkvæmdanna. Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á nýju brúna haustið 2028 að því er fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Með lagabreytingunni bætist við nýtt bráðabirgðaákvæði við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020 (lagt fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld). Með ákvæðinu er fjármála- og efnahagsráðherra, í samvinnu við innviðaráðherra, heimilt að undirgangast skuldbindingar fyrir ríkissjóð vegna útboðs á brú yfir Ölfusá og tengdum vegum á hringvegi gegn því að gjaldtaka af umferð um hana standi undir kostnaði í heild eða að lágmarki 50%.

Framkvæmdirnar verði fjármagnaðar að fullu með veggjöldum

Áætlanir gera eftir sem áður ráð fyrir að framkvæmdirnar verði fjármagnaðar að fullu með veggjöldum og því er heimildin hugsuð sem varúðarráðstöfun. Í nefndaráliti sínu um fjárlög 2025 segir meirihluti fjárlaganefndar Alþingis brýnt að veggjöld standi undir kostnaði að langmestu leyti og ítrekar að framkvæmdin hafi engin áhrif á útgjöld samkvæmt fjárlögum fyrr en að framkvæmdatíma loknum.

Í tilkynningu Vegagerðarinnar kemur ennfremur fram að áætlaður framkvæmdakostnaður við byggingu Ölfusárbrúar og tengda vegi í heild sinni er 14,3 ma.kr. á verðlagi ársins 2024. Þar af er brúin talin kosta um 8,4 ma.kr. Fjármagnskostnaður (verðbætur til verkloka og framkvæmdafjármögnun) vegna lántöku er áætlaður 3,6 ma.kr. Samtals er því heildarkostnaður við verkið áætlaður um 17,9 ma.kr. sem ætlunin er að standa undir með gjaldtöku af umferð.

Þegar brúin opnar verður heimilt að innheimta veggjöld en upphæð þeirra verður ákveðin í samvinnu stjórnvalda og Vegagerðarinnar. Vegfarendur hafa eftir sem áður val um aðrar leiðir á svæðinu. Ölfusárbrú mun að lokum teljast eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

Ný Ölfusárbrú gæti kostað bíleigendur 92 milljarða króna

Í nýútkomnu FÍB-blaði er umfjöllun um byggingu nýrrar Ölfusárbrúar. Þar sýna úteikningar fyrir FÍB að miðað við 20 ára innheimtutíma brúartolla verktakans gætu heildargreiðslur bíleigenda orðið um 59 milljarðar króna. Miðað við 30 ára innheimtutíma gætu þær numið um 92 milljörðum króna. Til að verktakinn fái fyrir vöxtum og kostnaði þyrfti brúartollur fyrir hverja einustu ferð að vera 816 kr. miðað við 20 ára innheimtutíma og 728 kr. miðað við 30 ár.

Afstaða FÍB til innheimtu vegtolla og brúartolla hefur lengi legið fyrir. Félagið er alfarið á móti þessari leið til að byggja upp samgöngur hér á landi, ekki síst þegar um er að ræða háa ávöxtunarkröfu í einkaframkvæmd. Það er tímaskekkja að taka gjald af ákveðnum samgöngubótum. Greiðar samgöngur eru lífæð samfélagsins og borga sig sjálfar í gegnum hindrunarlítið atvinnulíf og blómlegt mannlíf.

Umfjöllun FÍB um að ný Ölfusárbrú gæti kostað bíleigendur 92 milljarða króna má nálgast hér.