Framleiðsla á Saab í gang?
Líkur eru á að framleiðsla á Saab bílum hefjist á ný á síðari hluta ársins í Trollhättan í Svíþjóð. Ætlunin er að byggja um átta þúsund bíla á þessu ári. Langtíma framleiðslumarkmið er 120 þúsund bíla ársframleiðsla.
Eitthvert líf virðist vera að færast í Saab á ný eftir gjaldþrotið á síðasta ári. Kaupandi þrotabúsins var þá kínversk-sænska félagið Nevs sem hyggst framleiða rafbíla. Samkvæmt sænskum fjölmiðlum verða fyrstu bílarnir, sem byrja á að framleiða í ágústmánuði nk. þó ekki rafbílar heldur hefðbundnir Saab 9-3 með bensín og dísilvélum. Rafbílarnir eru sagðir væntanlegir árið 2014.
Opnuð hefur verið ný heimasíða Saab og þar er m.a. auglýst eftir starfsfólki. Sænskir fjölmiðlar greina frá því að búið sé þegar að endurráða nokkra þeirra sem áður störfuðu hjá Saab. Þá hafi kínverska borgin Qingdao fjárfest yfir tvo milljarða sænskra króna í Saab.