Framleiðsla Saab stöðvaðist í gær
Framleiðsla í samsetningarverksmiðju Saab í Trollhättan í Svíþjóð stöðvaðist að hluta í gær. Sænskir fjölmiðlar segja að ástæðan hafi verið skortur á íhlutum og að sá skortur hafi verið vegna þess að íhlutaframleiðendur hættu tímabundið að afhenda íhluti í því skyni að pressa Saab til að borga útistandandi skuldir. Eitthvað virðist það hafa gengið því að framleiðslan komast aftur á fullt skrið síðari hluta dags í gær.
Orðrómur hefur gengið um það all lengi að Saab eigi í peningavanda og ráði illa við að gera upp kassann frá degi til dags. Þessi orðrómur fór á enn frekara flug í síðustu viku þegar tilkynnt var fyrirvara- og skýringalaust að forstjórinn, Jan-Åke Jonsson væri hættur störfum. Síðan það gerðist hafa sænskir fjölmiðlar fengið það staðfest að bæði flutningafyrirtækið DB Schenker og auglýsingafyrirtækið Lowe Brindfors eiga ógreidda reikninga hjá Saab frá því fyrir síðustu jól. Eigandi og stjórnarformaður Saab; Victor Muller sagði svo Reuters fréttastofunni í gær að ágreiningur væri uppi milli Saab og flutningafyrirtækis, en það væri svosem ekkert til að hafa áhyggjur af.